Tilraunir með róttækar framtíðir
Sýningin Beyond Barcode var opnuð við Intercultural Museum í Ósló þann 30. mars síðastliðinn. Á sýningunni má finna sjö framtíðarsviðsmyndir af Ósló, höfuðborg Noregs, sem gerðar voru af ungu fólki búsettu í austurhluta borgarinnar.
Dr. Bergsveinn Þórsson, einn af sýningastjórum og hugmyndasmiðum sýningarinnar, verður þann 16. maí nk. með erindi á vegum Stjórnvísi, þar sem hann segir frá sýningargerðinni og þeim aðferðum sem beitt var við vinnslu sviðsmyndanna sem og ferlinu frá hugmynd til framkvæmdar. Erindið nefnist Beyond Barcode: Tilraunir með róttækar framtíðir.
Við undirbúning og gerð sýningarinnar í Ósló var stuðst við aðferðir framtíðarfræða í bland við vísindaskáldskap og skapandi samvinnu við ólíka hönnuði og listamenn. Markmið sýningarinnar er að hvetja til þess að horfa með margbreytilegum hætti til framtíðar og ígrunda hvernig ólíkar forsendur framtíðarhugsunar geta leitt af sér fjölbreyttar mögulegar framtíðir.
Bergsveinn Þórsson er dósent og fagstjóri í opinberri stjórnsýslu við Háskólann á Bifröst, en auk þess að sinna þar kennslu hefur hann stýrt reglulega námskeiðum í framtíðarhugsun fyrir ólíkar stofnanir og háskóla erlendis.
Rannsóknir Bergsvins snúa að loftslagsmiðlun, sjálfbærni og framtíðarlæsi menningarstofnanna þar sem hann hefur undanfarið unnið að því að móta aðferðir framtíðarlæsis m.a. í gegnum sýningargerð og styttri námskeið í framtíðarhugsun og sviðsmyndagerð.
Bergsveinn er hluti af alþjóðlega rannsóknarteyminu CoFutures við Háskólann í Osló.
Fyrirlesturinn fer fram á vegum Stjórnvísi á netinu þann 16. maí nk. kl. 09:00-10:00
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta