Þarfagreining og kortlagning á skapandi greinum 25. ágúst 2021

Þarfagreining og kortlagning á skapandi greinum

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, forsætisráðuneytið og Háskólinn á Bifröst gerðu þann 10. ágúst sl. með sér samning um undirbúning að stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina (RSG) við Háskólann á Bifröst. Undirbúningurinn verður unninn í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Samtök skapandi greina. 

Verkefnið hefur fengið stjórn og sitja í henni Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst, Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Valgerður G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Tónverkamiðstöðvar. Laufey og Valgerður sitja í stjórninni fyrir hönd Samtaka skapandi greina.   

Verkefnastjórnin kom saman og hélt fyrsta fund sinn sl. föstudag, þann 20. ágúst. Fór fundurinn fram í Björtu loftum í Hörpu og var meðfylgjandi mynd tekin af stjórninni við það tækifæri. 

Þegar hefur verið auglýst eftir verkefnisstjóra, sem mun hafa það hlutverk að halda utan um undirbúninginn í samstarfi og samráði við verkefnisstjórn.  

Verkefnin sem eru framundan snúa að þarfagreiningu og útfærslum á rannsóknaráherslum, kortlagningu á stöðu skapandi greina, greiningu á gögnum og þróun alþjóðlegs rannsóknarsamstarfs.  

Umsóknarfrestur um stöðu verkefnastjóra er til 3. september nk.  

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta