Tengslanetið á Bifröst kemur sér vel
Asco Harvester er eitt sex frumkvöðlafyrirtækja sem nýverið hlutu styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Einn stofnenda fyrirtæksins er Anna Ólöf Kristjánsdóttir, viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst, sem stofnaði fyrirtækið með mágkonu minni og bróður í ársbyrjun 2015, eftir að hafa fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði. Anna Ólöf sér um daglegan rekstur fyrirtækisins og segir raunhæf verkefni í námi hafa nýst vel í því starfi.
Fyirtækið vinnur að þróun sjávarþangsvélar sem slær sjávargróður og hreinsar rusl úr sjó og höfum. Þörungaverksmiðjan á Reykhólum hefur slegið þang í mörg ár og verið framarlega í þessari þróun frá um 1970 en asco Harvester vinnur að hönnun vélar sem er betur í stakk búin fyrir íslenskar aðstæður. Hlaut asco 2,5 milljóna króna styrk sem var jafnframt hæsta úthlutunin en alls voru veittar 10 milljónir króna í styrki.
„Hugmyndin kviknaði hjá Ómari Arndal, sem hefur mikla reynslu í skipasmíði, vinnuvélum, sjómennsku og þangslætti. Hann vantaði aftur á móti einhvern með sér til að sækja um styrki og sjá um rekstur fyrirtækisins og þannig kom ég að verkefninu fyrir um ári síðan. Það hefur reynst mér mjög vel að hafa unnið raunhæf verkefni og fengið haldgóða kennslu á Bifröst auk þess sem tengsl við kennara og samnemenda hafa komið sér vel. En ég leitaði mikið til þeirra m.a. við gerð umsóknar í Tækniþróunarsjóð,“ segir Anna Ólöf.
Samnemandi Önnu Ólafar, Bryndís Bessadóttir, hefur einnig komið að uppbyggingu fyrirtæksins sem starfsnemi en þær hafa fylgst að í námi frá árinu 2011. Þær hófu þá báðar nám í frumgreinadeild, sem þá hét, og fóru þær t.a.m. saman í skiptinám til Spánar 2013 og tóku þátt í Erasmus verkefni í Budapest árið 2014.
„Samstarf okkar hefur verið einstaklega gott og Bryndís hafði mikinn áhuga á að taka þátt í uppbygging á fyrirtækisins svo það lá í raun beint við að ráða hana til okkar í starfsnám. Auk þess vann hún að að nýsköpunarverkefni sem misserisverkefni í sínu námi og hefur því flotta reynslu sem nýtist asco Harvester,“ segir Anna Ólöf.
Búið er að smíða flot og eru því næstu skref að hefja smíði á færiböndum ásamt því að fá Siglinganúmer. Styrkurinn kemur sér því mjög vel og á hárréttum tíma þar sem færibönd og búnaður í kringum þau eru dýr. Þá verður áfram unnið að því að sækja um lánsfjármagn eða fjárfesta og segir Anna Ólöf að tengslanetið á Bifröst muni þar án efa koma sér vel.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta