Tækifæri fyrir ungt athafnafólk og fyrirtæki
Erasmus fyrir ungt athafnafólk (Erasmus for Young Entrepreneurs) er verkefni sem gefur ungu sem og reyndu athafnafólki tækifæri til þess að víkka tengslanet sitt, ungt athafnafólk getur lært af hinum reyndu og þau reyndu notið nýrra hugmynda frá þeim yngri. Verkefnið gerir ungu athafnafólki kleift að heimsækja fyrirtæki í öðrum Evrópulöndum sem hafa verið byggð upp frá grunni og auka þekkingu sína og taka þátt í starfsemi fyrirtækisins. Reynt athafnafólk og fyrirtæki þeirra geta einnig skráð sig og gert ungu athafnafólki kleift að koma og vera gestir í sínu fyrirtæki og notið hugmyndauðgi þeirra.
Þau sem geta sótt um að fara út til fyrirtækja, þurfa að hafa búið á Íslandi 6 af síðustu 12 mánuðum og vera með viðskiptahugmynd eða hafa verið með fyrirtæki rekstri ekki lengur en þrjú ár og því skilgreiningin "ungt" athafnafólk bundið við aldur fyrirtækis eða viðskiptahugmyndar. Umsækjendur geta valið fyrirtæki úr gagnagrunni Erasmus sem telur yfir 10.000 slík og sótt um að fá að heimsækja eitt þeirra í 1-6 mánuði. Dvölin er fjármögnuð að hluta af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Ef umsækjendur ná samningum við erlendu gestgjafana um lengd dvalar þá fá þeir styrk fyrir ferðakostnaði og uppihaldi. Styrkurinn er mis hár eftir löndum en er á bilinu 530 til 1100 evrur á mánuði. Nánari upplýsingar má finna hér.
Reynt athafnafólk getur skráð sig á lista fyrirtækja, en þau sem skrá fyrirtækið verða að hafa meira en þriggja ára reynslu af rekstri fyrirtækja. Þá þurfa viðkomandi aðilar að vera eigendur/stofnendur fyrirtækisins. Nánari upplýsingar má finna hér.
Hægt er að finna nánari upplýsingar og skrá sig eða fyrirtæki sitt á vefsíðu verkefnisins, hér. Engin skuldbinding fylgir því að skrá sig í verkefnið, þeir sem skrá sig ráða ferðinni og veltur ferlið á því að þau finni fyrirtæki við hæfi og nái samningum við athafnafólkið sem tekur á móti þeim.
Háskólinn á Bifröst er milligönguaðili í þessu verkefni og aðstoðar fólk við að skrá sig í verkefnið og finna viðeigandi fyrirtæki til að heimsækja. Hægt er að hafa samband við Einar Svansson (einarsv@bifrost.is) eða Ingólf Arnarson (ingolfur@bifrost.is) til að fá frekari upplýsingar um verkefnið, aðstoð við skráningu eða leit að aðila til að heimsækja. Frekari upplýsingar má finna hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta