18. október 2024

Svo langt frá heimsins vígaslóð

 Háskólinn á Bifröst hefur gefið út „Svo langt frá heimsins vígaslóð: Lýðveldið Ísland í samhengi“, eftir dr. Magnús Árna Skjöld Magnússon.

Á meðal þess sem fjallað er um í bókinni eru breytingar á hlutverki Íslands í hnattrænu samhengi ásamt þeim áskorunum sem íslenska lýðveldið stendur frammi fyrir á sviði stjórnmála, efnahagsmála og samfélagslegra breytinga. Jafnframt er þeirri samfélagslegu þróun gerð skil, sem umbreytti einangruðu eyríki hér á landi í þjóðríki með aðild að flóknum alþjóðlegum kerfum. Magnús skoðar þannig allt frá landnámi og til vorra tíma, hvaða áskoranir tekist hefur verið á við á hverjum tíma og áhrifum þess á íslenskt samfélag og efnahagsþróun. 

Titill bókarinnar vísar í ljóð Huldu „Hver á sér fegra föðurland", sem var samið árið 1944 í tilefni lýðveldisstofnunar Íslands. Hugmyndin um Ísland sem land langt frá vígaslóð hefur breyst með aukinni hnattvæðingu og opnum samskiptum við umheiminn og segja má að sú þróun sem liggur þar að baki myndi þungamiðju í umfjöllun Magnúsar. 

Þetta áhugaverða og aðgengilega fræðirit byggir á rannsóknum og greiningum höfundar ásamt öðrum fræðimönnum. Einnig er hér á ferð, fyrsta fræðiritið í röð ritrýndra verka eftir fræðimenn við Háskólann á Bifröst, sem háskólinn hyggst gefa út á næstu misserum.

Þess má einnig geta að efni bókarinnar byggir að hluta til á námsefni sem dr. Magnús Árni hefur kennt undanfarinn áratug við Háskólann á Bifröst og Háskóla Íslands og hentar framsetning efnisins ekki síður þeim sem hafa litla eða enga bakgrunnsþekkingu á stjórnmálum eða efnahagsmálum.

„Svo langt frá heimsins vígaslóð“ er bók sem mun nýtast jafnt almennum lesendum sem og háskólanemum og fræðafólki sem langar að fræðast nánar um þær áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir í alþjóðlegu samhengi.

Bókin er fáanleg í gegnum vefsíðu Háskólans á Bifröst og hjá helstu bóksölum landsins.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta