Stofnfundur Nomos Alumni 23. nóvember 2015

Stofnfundur Nomos Alumni

Föstudaginn 13. nóvember s.l. var haldinn stofnfundur Nomos Alumni, félags útskrifaðra af lögfræðisviðið Háskólans á Bifröst. Samkvæmt samþykktum félagsins sem lagðar voru fram til umræðu á fundinum verður tilgangur hins nýstofnaða félags  1) að vera öflugur vettvangur félagsmanna til að viðhalda og efla tengsl sín á milli og að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna á uppbyggilegan hátt, 2) að stuðla að gæðum, virðingu, uppbyggingu og þróun lögfræðisviðs Háskólans á Bifröst og 3) að stuðla að faglegri umræðu um lögfræðileg málefni  sem og önnur viðfangsefni náms við lögfræðisvið Háskólans á Bifröst.

Á fundinum var kjörin stjórn félagsins og munu hana skipa á fyrsta kjörtímabili Andrea Velgeirsdóttir, Elín G. Einarsdóttir, Guðmundur Jónsson, Jón Bjarni Steinsson, Kolbrún Garðarsdóttir, Lee Ann Maginnis og Sigurður Árnason. Fundarstjóri var Þorbjörg Sigríður Gunnlausdóttir sviðsstjóri lögfræðisviðs Háskólans á Bifröst. Vel var mætt á fundinn og urðu umræður um stofnun og væntanlegt starf félagsins líflegar. Ekki leyndi sér að viðstaddir töldu að stofnun félags með fyrrnefndan tilgang þarft og tímabært.

Að lokinni formlegri stofnfundardagskrá tóku þrír félagsmenn, Jónas Rafn Tómasson, senior manager hjá KPMG, Sonja Ýr Þorbergsdóttir lögfræðingur hjá BSRB og Pálmi Rögnvaldsson lögmaður hjá Landsbankanum til máls og höfðu áhugaverðar sögur að segja um starfsferil sinn að loknu námi við lögfræðisvið skólans. Formaður Hollvinasamtaka Bifrastar tók einnig til máls og óskaði hinu nýstofnaða félagi velfarnaðar og færði nýkjörinni stjórn gjöf fyrir hönd Hollvina. Forsvarsmenn Nomos, félags laganema á Bifröst, tóku einnig til máls og lögðu til samstarf milli félaganna tveggja og var því mjög vel tekið af stofnmeðlimum Nomo Alumni.

Nýskipuð stjórn er þegar tekin til starfa og mun hún hafa formlegt aðsetur í húsnæði Háskólans á Bifröst að Suðurgötu 10 í Reykjavík.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta