Söfnun á Karolina Fund sett af stað til að mennta konur í Tansaníu 22. október 2015

Söfnun á Karolina Fund sett af stað til að mennta konur í Tansaníu

Söfnun hefur verið hrundið af stað á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund til að halda annað námskeið undir heitinu Máttur kvenna fyrir fátækar konur í Tansaníu. Fyrsta námskeiðið var haldið í apríl á þessu ári og tókst það með eindæmum vel. Þrír kennarar frá Háskólanum á Bifröst auk sjálfboðaliða frá Þýskalandi hélt þá úti tveggja vikna námskeiði um gerð viðskiptaáætlana.

Nú vilja þau sem stóðu að fyrra námskeiðinu halda annað námskeið þar sem færri komust að en vildu síðast en auk þess eru uppi hugmyndir um að halda framhaldsnámskeið fyrir þær konur sem tóku inngangsnámskeiðið fyrr á árinu. Fimmtíu og þrjár konur tóku þátt í námskeiðinu og hafa nokkrar þeirra nú þegar hafist handa við stofnsetningu eigin fyrirtækja; svo sem í verslun með vefnaðarvöru, dagvöru og skrautmuni, í landbúnaði og meira að segja í einföldum fjármálaviðskiptum.

Annað markmið með söfnuninni er að koma á fót frumkvöðlasetri í Karatu bæ, skammt frá Bashay þorpi í norður Tansaníu. Til þess að gera þetta þarf hins vegar aukinn stuðning og því hefur verið hafið söfnun á Karolina Fund; https://www.karolinafund.com/project/view/817.

Rannsóknir sýna ótvírætt að besta leiðin til að draga úr vannæringu barna er að mennta mæður þeirra. Fjölskyldan öll nýtur góðs af atvinnusköpun kvenna, bætir hag heimilisins, veitir aðgang að heilbrigðisþjónustu og umfram allt stuðlar að menntun barna sem er lykillinn að árangri til framtíðar. Háskólinn á Bifröst telur sig ekki aðeins bera samfélagslega ábyrgð í heimabyggð heldur einnig í heimsbyggð og er því styrktaraðili að verkefninu auk Tanzanice Farm, tansanísks fyrirtækis í eigu Önnu Elísabetar Ólafsdóttur aðstoðarrektors Háskólans á Bifröst.  

Háskólinn á Bifröst hefur í áratug haldið úti námskeiðinu Máttur kvenna og nálægt þúsund íslenskar konur hlotið haldbæra menntun til eigin valdeflingar í námskeiðinu. Þetta verkefni hefur nú verið flutt til Tansaníu og aðlagað aðstæðum efnalítilla kvenna í þorpinu Bashay í norður Tansaníu. Markmiðið er að búa konurnar tækjum til að koma auga á viðskiptatækifæri í nærumhverfi sínu og færni til að koma þeim í framkvæmd.

Nánari upplýsingar er að finna á womenpowerafrica.org og facebook síðu verkefnisins: https://www.facebook.com/MatturKvennaTansania?fref=ts

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta