Skapandi greinar efla samfélagslega seiglu í landsbyggðum
Ný fræðigrein eftir Önnu Hildi Hildibrandsdóttur og samstarfsaðila hefur verið birt í alþjóðlega tímaritinu Frontiers in Communication. Greinin ber heitið „Cultural and Creative Actors in Non-Urban Areas: Enacting Local Stewardship as a Regenerative Approach“ og er skrifuð í samstarfi við Dr. Nancy Duxbury og Silvia Silva.
Greinina má nálgast hér.
Greinin heyrir undir rannsóknarþema tímaritsins sem nefnist Menning og skapandi greinar sem drifkraftur í þríþættri umbreytingu Evrópusambandsins: Þarfir, áskoranir og framtíðarfærni (e. Cultural and Creative Industries as Drivers of the EU’s Triple Transition: Needs, Challenges, and Future Skills).
Hún er hluti af rannsóknarverkefninu IN SITU, sem er styrkt af Horizon Europe, og fjallar um aðstæður og hlutverk menningar- og skapandi aðila í landsbyggðum.
Í greininni er varpað ljósi á hvernig staðbundin umsjón (e. stewardship) þeirra sem búa yfir djúpri þekkingu á sérkennum, auðlindum og möguleikum svæða er lykilatriði í enduruppbyggingu svæða, og hvernig slík nálgun birtist í starfsháttum skapandi aðila í landsbyggðum. Sýnt er fram á hvernig hún getur eflt samfélags-, menningar- og efnahagslíf staða og svæða.
Rannsóknin byggir á samanburðargreiningu tólf tilvikarannsókna frá sex Evrópulöndum, sem studdar eru eigindlegum gögnum og kerfisbundinni eftirfylgni. Íslensku dæmin eru Erpsstaðir og Rými X í Borgarnesi.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að skapandi aðilar gegna lykilhlutverki í að virkja staðbundnar auðlindir. Þeir vinna með lifandi menningararf sem síbreytilega auðlind, efla staðbundna sköpun, styrkja hæfni og tengslanet í heimabyggð og auka samfélagslegt og efnahagslegt þol. Þá kemur fram hvernig nýting og umbreyting opinna rýma getur stutt við virkari þátttöku og eflt félagsleg tengsl.
Rannsóknin varpar jafnframt ljósi á þær áskoranir sem þessir aðilar standa frammi fyrir, þar á meðal ótrygg starfskjör og viðkvæm rekstrarskilyrði margra nýsköpunarverkefna í landsbyggðum. Þetta eru þættir sem geta dregið úr þeim umbreytingarkrafti sem starfsemi þeirra býr yfir.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta