Sigur í höfn í framhaldi af misserisverkefni
Nemendur úr misserishópi G við Háskólann á Bifröst hafa ástæðu til að gleðjast, en Yfirskattanefnd hefur nýlega fellt úr gildi synjun Skattsins og samþykkt Barnaspítalasjóð Hringsins á almannaheillaskrá. Þessi niðurstaða markar tímamót og staðfestir í raun þá lögfræðilegu greiningu sem hópurinn vann í misserisverkefni sínu síðastliðið vor.
Hóp G skipuðu nemendur við lagadeild Háskólans á Bifröst, þær Bryndís Sunna Guðmundsdóttir, Gunnhildur Sunna Albertsdóttir, Íris Hrund Sigurðardóttir, Jenný Rebekka Jónsdóttir, Katrín María Sigurðardóttir og Katrín Ýr Árnadóttir og unnu þær verkefnið undir leiðsögn Unnars Steins Bjarndal, Lektors við lagadeild Háskólans á Bifröst. Verkefni þeirra bar heitið: Var vilji löggjafans, samkvæmt lögum nr. 90/2003 og nr. 110/2021, að útiloka félög sem takmarka félagsaðild við kyn frá skráningu í almannaheillaskrá?
Í verkefninu greindu nemendur hvort ætlun löggjafans hefði verið að útiloka félög sem takmarka félagsaðild við kyn frá skráningu í almannaheillaskrá. Niðurstaða greiningarinnar var skýr: ekkert í lögunum né lögskýringagögnum benti til þess að slík takmörkun ætti að leiða til synjunar. Þvert á móti leiddu bæði lögskýringasjónarmið og viðtöl við fulltrúa löggjafans, Skattsins og kvenfélaga til þeirrar niðurstöðu að félög sem starfa í þágu almannaheilla ættu að geta hlotið skráningu, óháð því hvort aðild sé takmörkuð við kyn, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.
Í samráði við Barnaspítalasjóð Hringsins tóku nemendur þátt í vinnslu kæru og rökstuðnings til Yfirskattanefndar, þar sem byggt var á þeim sjónarmiðum sem áður höfðu verið rökstudd fræðilega í verkefninu. Yfirskattanefnd hefur nú fallist á þessi rök og staðfest að ekki verði talið að löggjafinn hafi ætlað að útiloka félög sem takmarka félagsaðild eftir kyni, ef þau starfa í þágu almannaheilla.
Þessi niðurstaða gæti haft fordæmisgefandi áhrif fyrir önnur félög sem starfa í almannaþágu við sambærilegar aðstæður og styrkir um leið réttaröryggi, jafnræði og skýrleika í framkvæmd laga um almannaheillaskrá.
„Það er ólýsanlega ánægjulegt að sjá fræðilega vinnu fá raunveruleg áhrif í stjórnsýslu,“ segir hópurinn. „Við erum afar þakklát fyrir leiðsögn, stuðning og hvatningu kennara og aðstoðarfólks Háskólans á Bifröst í gegnum allt ferlið, sem hafði gríðarleg áhrif á vinnubrögð okkar og hvatti okkur til að fylgja rannsókninni eftir í framkvæmd.“
Niðurstaða málsins er ekki aðeins mikilvæg fyrir Barnaspítalasjóð Hringsins, heldur einnig fyrir framtíðarframkvæmd laga um almannaheillafélög og staðfestir gildi fræðilegrar nálgunar í raunverulegum lagalegum úrlausnum.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta