Sérhæft meistaranám í viðskiptalögfræði 24. nóvember 2016

Sérhæft meistaranám í viðskiptalögfræði

Háskólinn á Bifröst býður hagnýtt og krefjandi MBL nám í viðskiptalögfræði sem hefst nú í janúar.Námið er hið eina sinnar tegundar á Íslandi en MBL stendur fyrir Master in business law.

 „Nýmælið felst í því að bjóða upp á sérhæft meistaranám í viðskiptalögfræði sem ætlað er sérstaklega til að styrkja stöðu fólks sem hefur reynslu úr fyrirtækjaumhverfinu og hentar ekki síður fyrir þá sem lokið hafa háskólaprófi af öðrum sviðum en lögfræði. Þannig erum við nú að opna lagadeildina og leggjum áherslu á breiða og hagnýta menntun sem eflir m.a. stjórnendur í lykilgreinum viðskiptalögfræði en þær eru jafnframt lykilsvið viðskiptaumhverfis,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, forseti lagadeildar, og bætir við að með þessu sé farið inn á svipaðar brautir í meistaranámi og fólk þekki úr viðskiptum og stjórnsýslu, með gráðum á borð við MBA og MPA.

Samhliða MBL náminu verður boðið upp á þrjár diplómur, sem eru styttri námsleiðir af afmörkuðum sviðum viðskiptalögfræðinnar. Um er að ræða 30 eininga námsleiðir, þ.e. diplóma í fyrirtækjalögfræði, diplóma í samningatækni og sáttamiðlun og loks diplóma í skattarétti sem hefst næsta haust.

Nám á eigin hraða þegar þér hentar

Háskólinn á Bifröst var fyrstur íslenskra háskóla til að bjóða upp á þverfaglega námsgráðu í lögfræði með BS námi í viðskiptalögfræði. Námið hefur verið vinsælt og meistaranám á sama sviði því eðlileg  framvinda námsins. MBL nám í viðskiptalögfræði er 90 eininga nám án ritgerðar sem hægt er að ljúka á einu og hálfu ári eða á lengri tíma. Þá verður áfram í boði 120 eininga ML gráða í viðskiptalögfræði fyrir þá sem lokið hafa grunnnámi í lögfræði og vilja ljúka fullnaðarprófi í lögfræði með meistararitgerð.

Námið verður kennt í fjarnámi en Háskólinn á Bifröst hefur áralanga reynslu af slíkri kennslu. Fyrirlestrar og kennsluefni í hverju námskeiði er aðgengilegt nemendum á innri vef skólans. Nemendur geta þannig skipulagt hvenær þeir hlusta á fyrirlestra eftir hentugleika hverju sinni.

Umsóknarfrestur í námið er til 10. desember og má finna umsóknarvef Háskólans á Bifröst hér

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta