14. september 2024

Sérfræðingur í þjóðaröryggi

Gregory Falco, Ph.D og lektor við Sibley School of Mechanical and Aerospace Engineering and the Systems Engineering Program við Cornell háskólann í Bandaríkjunum, mun sinna kennslu í þjóðaröryggisfræðum í vetur sem Fulbright-fræðimaður við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst.

Gregory Falco hefur, þrátt fyrir ungan aldur, getið sér góðs orðs á fræðasviðum alþjóðlegra þjóðaröryggismála. Ólína Þorvarðardóttir, forseti félagsvísindadeildar, segir mikið ánægjuefni að fá hann til liðs við uppbyggingu öryggis- og almannavarnafræða við Háskólann á Bifröst. Um nýja námslínu sé að ræða á grunnnámsstigi, sem hafi verið undanfarin tvö ár í undirbúningi í samstarfi hennar og Ásthildar Elvu Bernharðsdóttur, prófessors í áfallastjórnun, og mikil viðurkenning felist í því að jafn öflugur fræðimaður á sínu sviði og Falco sé komin hingað til lands til að sinna kennslu og rannsóknum við deildina.

Námskeiðin sem Falco kennir eru þrjú eða Þjóðaröryggisfræði í íslensku samhengi, Sjálfbærni og þjóðaröryggi og Netöryggi. Eru námskeiðin hluti af nýrri BA námslínu við félagsvísindadeild í öryggisfræðum og almannatengslum. Þá er námskeiðið í netöryggi einnig á námskrá meistaranáms í áfallastjórnun.

Falco lauk doktorsprófi í netöryggisfræðum við rannsóknastofnunina Computer Science and Artificial Intelligence Laboratory (CSAIL) í MIT tækniháskólanum. Þá var Falco, áður en hann hóf störf við Cornell, lektor  við rannsóknastofnunina Johns Hopkins University’s Institute for Assured Autonomy. Póstdoktor-rannsóknum sínum lauk hann við Freeman Spogli Institute stofnunina við Stanford háskólann og MIT CSAIL. 

Samhliða því sem Falco sinnir kennslu og fræðastörfum, er hann forstöðumaður rannsóknastofnunarinnar Aerospace ADVERSARY Laboratory, sem vinnur að hönnun og þróun á næstu kynslóð sjálfvirkra og öruggra geiminnviða. Felst sérstaða Falco ekki hvað síst í því að hann er hakkari sem kann að nota ekki aðeins eðlisfræðilegar aðferðir heldur einnig nýjustu  tölvutækni og hefur honum þannig tekist að leysa úr verkefnum sem voru til skamms tíma talin jafnvel óleysanleg. 

Þá hefur hann komist Forbes30 listann yfir Under30 for Enterprise Technology. 

Þess má svo geta a Falco er einn af forvígismönnum HEIST, fjölþjóðlegs samstarfsverkefnis, sem HB á aðild ásamt m.a. öðrum háskólum í Svíþjóð og Sviss og snýr að þjóðaröryggislegum þáttum í gangaflutningum á sæstrengjum. Morgunblaðið (12.09.2024) birti nýlega viðtal við Falco þar sem fjallað er m.a. um verkefnið.

Myndin af Gregory Falco á vefforsíðu var tekin á ferð hans um Vesturland nýlega.

Fréttin var uppfærð 14.09.2024

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta