Guðrún Johnsen, deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst, tók við embætti deildarforseta í sumar sem leið.
20. september 2024Segðu mér
Guðrún Johnsen, deildarforseti viðskiptadeildar, segir Sigurlaugu M. Jónasdóttur frá lífi sínu og störfum hér heima og erlendis í Segðu mér, einum vinsælasta útvarpsþætti RÚV.
Stiklar Guðrún á helstu vörðunum hjá sér eða allt frá því að hún fór nýbakaður stúdent úr MR til Þýskalands og þar til hún uppgötvaði undramátt tölfræðinnar, sem var til þess að hún ákvað endanlega að gerast hagfræðingur.
Sá draumur hafði þá blundað lengi í henni, eða allt frá því að hún fór að fylgjast með þjóðmálaumræðunni um og upp úr 1980. Um það leyti var Jón Sigurðsson, hagfræðingur og Hagstofustjóri áberandi í fréttum og segir Guðrún að hann hafi vakið hjá henni áhuga á faginu og það mikinn að hún brenni enn jafn mikið fyrir hagfræðinni.
Frá Þýskalandi lá leiðin til Íslands og þaðan aftur til annarra landa eins og Bandaríkjanna, og Frakklands á vegferð Guðrúnar til mennta og ábyrgðarstarfa á alþjóðlegum vettvangi, en hún hefur m.a. starfað hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
Guðrún, sem tók við embætti deildarforseta hjá Háskólann í Bifröst í sumar, segist jafnframt full eldmóðs í nýja starfinu. Hún hlakki til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem bíða. Þeirra stærst og skemmtilegast sé að fylgja eftir þeirri stækkun sem orðið hefur við deildina með meira en tvöföldun í fjölda nemenda, sem eru nú alls 900 talsins af 1600 nemendum við háskólann.
Guðrún, sem er með doktorspróf í hagfræði École Normale Superiéure í París, hefur á fræðasviði sínu vakið athygli fyrir m.a. rannsóknir á konum í viðskiptalífinu og vilja þeirra til að taka áhættu, en í viðtalinu kemur m.a. fram að fyrirliggjandi gögn bendi ekki til þess að konur skeri sig sem úr að þessu leyti í samanburði við karla.
Guðrún rifjar einnig upp að á tímabili hafi hún ætlað sér að feta allt aðrar brautir listnáms og bóhemíu en smám saman hafi áhuginn á þjóðhagfræðinni orðið öllu yfirsterkari. Það hafi þó ekki breytt því að fagurfræði tilverunnar hafi og muni alltaf skipta hana máli. Menning og listir skipi því ekki síður stóran sess í lífi hennar en hagfræðin.
Óhætt er að mæla með þessu skemmtilega viðtali Sigurlaugar M. Jónasdóttur við Guðrúnu.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta