Samtal um skapandi greinar: Rekstrarumhverfi tónlistar
Rannsóknasetur skapandi greina og Tónlistarmiðstöð í samstarfi við CCP boða til opins samtals á Bransaveislu um rekstrarumhverfi tónlistarfólks og tónlistarverkefna. Viðburðurinn fer fram í höfuðstöðvum CCP á þriðju hæð í Grósku, miðvikudaginn 5. nóvember frá kl. 10.00 til 11.30. CCP býður fundargestum upp á kaffi. Viðburðurinn fer fram á ensku og honum verður streymt af Facebook. Vinsamlegast skráið mætingu (á staðinn) hér. Athugið að sætaframboð er takmarkað. Skráningu lýkur kl. 12 þriðjudaginn 4. nóvember.
Viðburðurinn markar fyrsta skrefið í aðgerðaáætlun tónlistarstefnu stjórnvalda, þar sem lögð er áhersla á að hefja skoðun á rekstrarumhverfi tónlistar á Íslandi og bera það saman við aðstæður á Norðurlöndum og í öðrum löndum þar sem tónlistariðnaður stendur sterkum fótum.
Dagskrá viðburðarins spannar bæði fræðileg og hagnýt sjónarhorn á stöðu tónlistargeirans. Fundurinn hefst kl. 10:00 með erindum frá Erlu Rún Guðmundsdóttur, forstöðukonu Rannsóknaseturs skapandi greina, og Maríu Rut Reynisdóttur, framkvæmdastjóra Tónlistarmiðstöðvar. Að því loknu tekur við pallborðsumræða þar sem Nick Knowles, umboðsmaður og stofnandi KxKn Management, stýrir umræðum. Með honum í pallborðinu sitja Colm O’Herlihy, framkvæmdastjóri Inni Music, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir, tónlistarkona og verkefnastjóri Reykjavík Early Music Festival, Pétur Oddbergur Heimisson, framkvæmdastjóri Jazzhátíðar í Reykjavík, og Rakel Mjöll Leifsdóttir, tónlistarkona, stundakennari í Háskólanum á Bifröst og A&R hjá Alda Music.
Þess ber að geta að Rakel er meðal stundakennara í nýju örnámi í Tónlistarviðskiptum við Háskólann á Bifröst. Er þetta í fyrsta sinn sem boðið er upp á slíkt nám á Íslandi. Örnámið Tónlistarviðskipti er kennt á ensku og samanstendur af 12 ECTS einingum (tveimur 5 ECTS námskeiðum og einni 2 ECTS vinnusmiðju) og er að mestu í fjarnámi. Hægt er að skrá sig í örnámið í gegnum endurmenntun en námskeiðin standa jafnframt nemendum í skapandi greinum við Háskólann á Bifröst og við tónlistardeild Listaháskóla Íslands til boða sem valnámskeið. Námið hefst í janúar 2026. Skráning og nánari upplýsingar.
Rannsóknasetur skapandi greina var stofnað árið 2023. Stofnaðilar eru Háskólinn á Bifröst, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum. Rannsóknasetrið er umsýslað af Háskólanum á Bifröst. Stefna og markmið Meginmarkmið Rannsóknaseturs skapandi greina (RSG) er að efla rannsóknir á atvinnulífi menningar og skapandi greina, með hliðsjón af fjölþættum áhrifum listsköpunar og menningarframleiðslu á samfélagið. RSG er óháður rannsóknaraðili og leggur áherslu á akademískt sjálfstæði í allri starfsemi. Rannsóknasetrið sinnir fjölbreyttum rannsóknum og greiningum á atvinnulífi menningar og skapandi greina og vinnur að því að styrkja rannsóknamenningu og -innviði á þessu sviði.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta