Nýtt örnám í tónlistarviðskiptum brýtur blað í íslensku háskólanámi
21. október 2025

Nýtt örnám í tónlistarviðskiptum brýtur blað í íslensku háskólanámi

Í fyrsta sinn á Íslandi er nú boðið upp á örnám um tónlistargeirann (Micro-Credential in Music Industry Studies). 

Örnámið Tónlistarviðskipti er kennt á ensku og samanstendur af 12 ECTS einingum (tveimur 5 ECTS námskeiðum og einni 2 ECTS vinnusmiðju) og er að mestu í fjarnámi. Hægt er að skrá sig í örnámið í gegnum endurmenntun en námskeiðin standa jafnframt nemendum í skapandi greinum við Háskólann á Bifröst og við tónlistardeild Listaháskóla Íslands til boða sem valnámskeið. Námið hefst í janúar 2026. Skráning og nánari upplýsingar. 

Námskeiðin verða kennd á vorönn 2026 og eru eftirfarandi:  

Kennarar á námskeiðunum eru Rakel Mjöll Leifsdóttir, tónlistarkona og stundakennari við Háskólann á Bifröst, og Dr. Olga Kolokytha, fræðikona við Háskólann í Krems, og við Vínarháskóla í Austurríki ásamt því að vera stundakennari við Háskólann á Bifröst. Þær leiða nemendur í gegnum bæði fræðilega og hagnýta nálgun á tónlistargeirann, allt frá sköpun og útgáfu, til stefnumótunar og verkefnastjórnunar í ýmsu samhengi. 

Gestakennari verður Oliver Clubb, breskur sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu sem sér meðal annars um markaðsmál fyrir rokkarann Yungblud. Hann veitir nemendum innsýn í mótun herferða og útfærslu. Nemendur munu hanna sína eigin stafrænu markaðsherferð undir hans handleiðslu.  

„Þetta er fyrsta nám sinnar tegundar á háskólastigi hér á landi,“ segir Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri BA-náms í skapandi greinum við Háskólann á Bifröst. 
„Við erum afar stolt af því að geta boðið upp á alþjóðlegt nám sem nýtist bæði tónlistarfólki og öðrum sem starfa í tónlistargeiranum. Þetta er geiri í örri og stöðugri þróun, og á undanförnum áratugum höfum við séð mikinn árangur íslenskra tónlistarmanna – þar er ekkert lát á. Markmiðið er að tengja saman fræðilega þekkingu og raunverulega reynslu úr tónlistariðnaðinum, bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi.“ 

Námið er þróað af Háskólanum á Bifröst í samstarfi við Listaháskóla Íslands, með stuðningi frá Samstarfi háskólanna, og markar tímamót í þróun örnáms á háskólastigi hér á landi.