Samfélagið er lykill að íslensku
Það er gaman að segja frá því að við á Bifröst eigum 3 frábæra fulltrúa á ráðstefnunni Samfélagið er lykill að íslensku sem fer fram í Háskólanum á Akureyri um helgina. Þetta eru þær Helga Birgisdóttir, Sigríður Kristinsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir sem kenna allar námskeið í íslensku sem annað mál og íslensku hjá okkur.
Helga Birgisdóttir, stundakennari við Háskólann á Bifröst og lektor á MVS við HÍ flytur ásamt Ingunni Hreinberg, aðjunkt við MVS, erindið “Sitja öll við sama borð? Undirbúningur kennara og aðstaða til íslensku í skólum landsins”.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um yfirstandandi rannsókn á námi nemenda með fjölbreyttan tungumálabakgrunn og beinist athyglin hér sérstaklega að því hvernig undirbúning kennarar fá til að kenna nemendum með önnur eða fleiri móðurmál en íslensku sem og að þeirri aðstöðu og aðstæðum sem skólarnir bjóða upp á.
Sigríður Kristinsdóttir er einnig stundakennari við Háskólann á Bifröst og kennari í Háskóla Íslands. Hún flytur erindið „Smá úps! Þykkni af reynslu og fræðum eftir um 30 ára starfsreynslu í íslensku sem öðru máli á háskólastigi“.
Nútíminn er kraumandi skemmtilegur hvað varðar tungumálakennslu, nú er ekki lengur verið að leita að aðferðinni með ákveðnum greini. Við erum ekki öll eins og það er ekki það sama sem hentar okkur hverju og einu og svo þróumst við og breytumst. Ef við líkjum ferlinu við næringu þá borðum við ekki það sama í morgunmat, hádegismat eða kvöldmat og við borðum ekki það sama á sumrin og á veturna. Í þessu erindi mun Sigríður fara yfir það sem reynslan hefur kennt henni og hvernig það rímar við fræðin.
Guðrún Steinþórsdóttir stundakennari við Háskólann á Bifröst og kennari í Háskóla Íslands flytur erindið „Viðkvæm álitamál í bókmenntakennslu í íslensku sem öðru máli“.
Í erindinu verður fjallað um mögulega árekstra menningarheima í bókmenntakennslu og hvernig kennarar í íslensku sem öðru máli geta komið til móts við fjölbreyttan nemendahóp af ólíkum uppruna og sýnt honum samlíðan. Í því skyni verður sérstaklega dregið fram hvernig gera má kennslustofuna að öruggu rými og hvaða kennsluaðferðum kennarar geta beitt til að gefa nemendum sínum lykla að íslenskum bókmenntum og ræða viðkvæm álitamál, með hliðsjón af íslenskum bókmenntatextum, þannig að öllum líði vel og geti óhindrað sagt skoðanir sínar.
Við óskum þeim góðs gengis á ráðstefnunni!
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta