Dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir er fyrsti forseti félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Bifröst 6. september 2017

Dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir er fyrsti forseti félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Bifröst

Sameining deilda Háskólans á Bifröst

Félagsvísindadeild og lagadeild Háskólans á Bifröst voru sameinaðar í eina deild þann 1. ágúst síðastliðinn, undir heitinu félagsvísinda- og lagadeild. Markmiðið með sameiningunni er fyrst og fremst að styrkja deildirnar faglega og auka gæði í innra starfi skólans.

Fyrsti forseti félagsvísinda- og lagadeildar er Dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir, dósent, sem áður gengdi stöðu forseta félagsvísindadeildar. Þar að auki verður Helga Kristín Auðunsdóttir, lektor, staðgengill deildarforseta en Helga Kristín stundar doktorsnám í lögfræði við Fordham-Háskóla í New York. Sameiningin sem slík mun ekki hafa áhrif á nemendur sem nú stunda nám við umræddar deildir en allar námsbrautir í grunn- og meistaranámi verða kenndar með sama hætti á lagt var upp með. Fjöldi akademískra starfsmanna verður sá sami en aukin samvinna mun bjóða upp á frekari tækifæri til samþættingar námslína. Þannig veitir þessi tilhögun sóknarfæri í þróun á námsframboði bæði í grunn- og meistaranámi og hvetur til aukins samstarfs á sviði rannsókna.

Dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir hefur starfað við Háskólann á Bifröst frá 2010, fyrst sem stundakennari og sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst og síðan sem fastráðinn akademískur starfsmaður við félagsvísindadeild. Árið 2012 lauk Sigrún doktorsprófi í félagsfræði við Háskólann í Exeter og hafði áður lokið meistaranámi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Sigrún var ráðin sviðsstjóri félagsvísindasviðs í ágúst 2015 og hlaut framgang til dósents í júní 2016. Á síðasta skólaári dvaldi Sigrún við rannsóknastörf við tónlistardeild Háskólans í Oxford en hún hlaut Marie Sklodowska-Curie rannsóknarstöðustyrk til eins árs frá Evrópusambandinu. Rannsóknarverkefni Sigrúnar fjallar um menningarpólitísk álitamál í tónlistarstarfi innan Háskólans í Oxford.

,,Sameiningin leggst vel í mig; hún býður upp á mörg tækifæri í kennslu og rannsóknum og er fyrst og fremst liður í því að styrkja enn frekar innra starf skólans og móta þannig öfluga liðsheild. Akademískir starfsmenn deildarinnar eru sérfræðingar á sínu sviði; virkir rannsakendur sem eru áberandi í opinberri þjóðfélagsumræðu, m.a. um stjórnmál og efnahagsmál. Að sama skapi höfum við innanborðs starfandi lögmenn og aðra sérfræðinga úr atvinnulífinu sem koma að kennslu í hinum ýmsu námskeiðum. Hin sameinaða deild verður þannig vettvangur fyrir frekari nýsköpun og mótun nýrra námsbrauta, ásamt því að styrkja þær sem fyrir eru. Jafnframt verður deildin vettvangur áhugaverðra skoðanaskipta og frekara samstarfs í rannsóknum á sviði lögfræði og félagsvísinda” segir Dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir, nýr deildarforseti.

Frekari upplýsingar um hina sameinuðu deild má finna hér

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta