Félagsvísinda- og lagadeild

Nám í  félagsvísinda- og lagadeild byggir á grunni tveggja háskóladeilda sem sameinuðust þann 1. ágúst 2017. Í boði eru hagnýtar námsbrautir í grunn- og meistaranámi sem miða að því að miðla kunnáttu og víðtækri fræðilegri þekkingu sem nýtist í margvíslegum störfum á síbreytilegum vinnumarkaði, auk þess að búa nemendur undir virka og gagnrýna þátttöku í þjóðmálaumræðu.

Í öllu námi skólans er mikil áhersla lögð á verkefnavinnu þar sem nemendur þurfa að tileinka sér sjálfstæð og vönduð vinnubrögð. Nemendum gefst jafnframt kostur á að stunda nám við erlenda háskóla með því að fara í skiptinám í gegnum Erasmus-áætlunina.

Nemendur í grunnnámi eiga kost á að taka hluta af námi sínu í formi starfsnáms hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum. Í tengslum við meistaranám í menningarstjórnun er  mikil áhersla lögð á góða tengingu við menningargeirann þar sem nemendur eiga kost á starfsnámi sem veitir innsýn í starfsemi fyrirtækja og stofnana, auk þess að afla þeim tengsla á vinnumarkaði.

Háskólinn á Bifröst hefur sterk tengsl við atvinnulífið, t.d. eru kennarar í lögfræði mörg hver starfandi lögmenn, bæði hjá opinberum stofnunum og í einkageiranum. Akademískir starfsmenn við deildina taka jafnframt virkan þátt í og eru sýnileg í opinberri þjóðmálaumræðu og virkir rannsakendur, hver á sínu sviði.

Háskólinn á Bifröst tekur þátt í LawWithoutWalls sem er samstarfsverkefni margra virtustu lagadeilda í heimi eins og Harvard, Stanford University og University of Miami.

Vefsíða Law Without Walls

Grunnnám

Meistaranám

Njörður Sigurjónsson

Njörður Sigurjónsson
Prófessor og forseti félagsvísinda- og lagadeildar