Rúmlega 50 hófu nám við Bifröst í janúar 21. janúar 2016

Rúmlega 50 hófu nám við Bifröst í janúar

Rúmlega 50 nýir nemendur hófu skólagöngu við Háskólann á Bifröst núna í janúar. Flestir  hófu nám í grunn- og meistaranámi eða 39 en aðrir byrjuðu annars vegar í Háskólagátt og hins vegar í Verslunarstjórnun á Símenntunarstigi. Þetta er nokkur fjölgun frá í fyrra þegar um 40 hófu nám í janúar 2015. Þetta er því annað árið í röð sem tiltölulega stór hópur kemur inn í skólann á vorönn og er mun stærri en áður tíðkaðist.

„Háskólinn á Bifröst horfir fram á betri tíma.  Rekstur skólans hefur verið að styrkjast með fjölgun nemenda á síðustu árum og stefnt er að frekari vexti í skólanum.  Þróun og nýjungar í námsframboði hafa skilað árangri.  Skólinn verður 100 ára árið 2018 og markmiðið er að hann verði þá öflug stofnun sem gegnir með sóma því aldar gamla hlutverki sínu að mennta fólk til forystu í atvinnulífinu og samfélaginu“ segir Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst.

Alls eru um 600 nemendur skráðir til náms við Háskólann á Bifröst á vorönn 2016 sem er svipaður fjöldi og var á sama tíma í fyrra. Flestir eru nemendurnir í grunn- og meistaranámi eða tæplega 500. Undanfarin ár hefur nemendafjöldinn farið vaxandi við Háskólann á Bifröst og á það við á öllum skólastigum, símenntun, Háskólagátt, grunn- og meistaranámi. 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta