Rekur hönnunar- og auglýsingafyrirtæki samhliða lögfræðináminu 9. nóvember 2015

Rekur hönnunar- og auglýsingafyrirtæki samhliða lögfræðináminu

Sigtryggur Arnþórsson er útskrifaður með BS gráðu í viðskiptalögfræði frá Bifröst og er núna á lokametrunum í ML í lögfræði við skólann. Hann er þó líka meðeigandi að nýsköpunarfyrirtækinu //JÖKULÁ ehf sem sinnir ýmis konar hönnunarvinnu og uppsetningu á vefsvæðum. Við vildum forvitnast af hverju hann fór út í að stofna þetta fyrirtæki ásamt félaga sínum sem er nokkuð langt frá því sem hann er hefur verið að nema undanfarið.
 
Hvert eru kominn í náminu og hvað ertu að læra?
 
Ég er útskrifaður úr B.s. námi í viðskiptalögfræði en stunda núna ML í lögfræði sem ég stefni á að ljúka næsta sumar.
 
Hvað gerir //JÖKULÁ
 
//JÖKULÁ er hönnunar- og auglýsingastofa sem var stofnuð í ágúst s.l. Fyrirtækið leggur sérstaka áherslu á grafíska hönnun, s.s. gerð firmamerkja (e. logo), auglýsinga og hreyfimynda (e. animated infographic). Við höfum verið mikið að taka að okkur verkefni sem fela í sér að koma upp heildarútlit fyrir ný fyrirtæki. Í slíkum verkefnum gerum við firmamerki, hönnum og forritum vef, hönnum bréfsefni, nafnspjöld o.s.frv.
 
Hvers vegna fórst þú út í þessa tegund af rekstri?
 
Áður en ég byrjaði að stunda nám á Bifröst hafði ég kynnt mér forritun og lært að setja upp vefsíður. Það þróaðist svo að ég byrjaði að fá fyrirspurnir um að gera vefsíður fyrir fyrirtæki á meðan ég var í námi í frumgreinardeildinni á Bifröst, sem hélt svo áfram á meðan ég var í viðskipalögfræðinni. Þau fyrirtæki sem ég gerði vefi fyrir spurðu gjarnan um hönnun á öðru efni, en þá hafði ég samband við fyrrum samstarfsfélaga sem var að læra grafíska hönnun. Ég og meðstofnandinn af //JÖKULÁ, Björgvin Pétur Sigurjónsson, vorum byrjaðir að taka að okkur þó nokkur verkefni á meðan við vorum báðir í námi. Eftir að Björgvin lauk námi sínu í grafískri miðlun í Tækniskólanum, í Academic professional í margmiðlunarhönnun úr IBA, Kolding Danmörku og í Conservatory Diploma í 3D hreyfimyndahönnun (animation) úr New York Film Academy í Los Angeles, Bandaríkjum, var tekin sú ákvörðun að stofna fyrirtæki utan um þetta samstarf okkar. Samstarfið og upphaf fyrirtækisins varð því til á meðan ég stundaði nám á Bifröst og hann Björgvin í Kolding, Danmörku.
Eftir að fyrirtækið var stofnað var hlutverkum skipt þannig að ég myndi sinna daglegum rekstri og að ráðinn yrði til okkar forritari til að taka við að þeim hluta, en að Björgvin myndi sjá um grafíska hönnun og yfirumsjón á henni.
 
Hvernig er að reka fyrirtækið samhliða náminu?
 
Það eru gerðar miklar kröfur til okkar á Bifröst og má alveg segja að oft finnst mér ég ekki hafa tíma í hvort tveggja reksturinn og skólann. Þó er það þannig að maður fer ósjálfrátt að skipuleggja sig betur til að koma öllu fyrir og forgangsraða tímanum til að ná að skila allri vinnu vel af sér. Sem dæmi þá fórna ég gjarnan því að hlusta á fólk vera að lasta allt mögulegt í Reykjavík síðdegis í útvarpinu í bílnum, þess í stað hlusta ég á hljóðfyrirlestra í lögfræðinni eða jafnvel á dóma í þar til gerðu upplestrarforriti.
 
Hvernig hefur námið nýst við reksturinn?
 
Námið hefur nýst mjög mikið við stofnun félagsins og innra skipulag þess. Áður en ég hóf nám á Bifröst hafði ég verið með lítinn pizzustað en i náminu hef ég gjarnan séð hvar ég hefði getað staðið mig betur í þeim rekstri, þrátt fyrir það að hafa búið til langbestu pizzur á Íslandi. Vegna námsins er verulegur munur á því hvernig ég nálgast og geng frá málum í fyrirtækinu, má því segja að allt „fúsk“ hafi farið með náminu og þess í stað komu fagleg vinnubrögð.
 
Eitthvað að lokum?
 
Samstaða Bifrestinga og þau tengsl sem við myndum við samnemendur í náminu hafa skipt mig miklu máli, bæði persónulega og við fyrirtækið. Bifrestingar hvort sem er nemendur eða útskrifaðir hafa verið mjög duglegir að vísa verkefnum til okkar og mæla með okkur en af því hef ég séð beinan árangur. Þessi meðmæli og ábendingar eru okkur ómetanleg og hjálpa okkur gríðarlega að koma fyrirtækinu almennilega á laggirnar og fyrir það er ég mjög þakklátur! 
 
 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta