Rekstur á traustum grunni
Ársfundur Háskólans á Bifröst var haldinn í Hjálmakletti í Borgarnesi í gær. Ársæll Harðarson, stjórnarformaður, flutti skýrslu stjórnar og að því búnu flutti Margrét Jónsdóttir Njarðvík skýrslu rektors.
Á undangengnu ári stóð einkum tvennt upp úr, þegar litið er yfir farin veg, eða lokun aðalbygginga á Bifröst í júní í fyrra vegna húsmyglu annars vegar og hins vegar viðræður við Háskólann á Akureyri, sem snerust um fýsileika sameiningar háskólanna tveggja í öflugan rannsóknaháskóla á landsbyggðinni.
Varðandi lokun aðalbygginga á Bifröst undirstrikaði rektor mikilvægi þess að sú aðgerð hafi reynst nauðsynleg og að lokunin hefði ekki haft áhrif á skólastarfsemina, að því einu undanskildu að staðlotur hefðu verið færðar í Menntaskóla Borgarfjarðar. Öðru máli gegndi um stjórnsýsluna, sem hefði verið flutt í aðstöðu sem sett var upp til bráðabirgða í íbúðarhúsnæði á Bifröst, en mygla greindist ekki í íbúðarhúsnæði staðarins. Nýja stefnu þurfi því að marka í húsnæðismálum háskólans og mikilvægt að hagkvæm framtíðarlausn verði fundin sem falli vel að þörfum háskólans sem framsækinnar fjarmenntastofnunar.
Þá fór Anna Þórunn Reynis, fjármálastjóri, yfir ársreikning háskólans fyrir síðasta almanaksár, auk þess sem hún greindi frá fyrirsjáanlegum áherslubreytingum í fjármögnun starfseminnar á þessu ári samfara niðurfellingu skólagjalda. Í máli Önnu kom m.a. fram að reksturinn væri samfara auknum tekjum fjárhagslega heilbrigður þriðja árið í röð, sem hefði svo aftur gert kleift að fjárfesta enn frekar á síðasta ári í mannauði háskólans, bæði í rannsóknum og kennslu og í stjórnsýslu.
Ársfundurinn var haldinn kl. 13:00-15:00 í Hjálmakletti, eins og áður segir, bæði sem staðfundur og fjarfundur á Teams og var mæting góð á meðal starfsfólks háskólans.
Fyrr um morguninn sættu stjórn og framkvæmdastjórn háskólans jafnframt lagi og héldu sameiginlegan fund, þar sem farið var yfir stöðuna í sameiningarviðræðum Háskólans á Bifröst og Háskólans á Akureyri og línur lagðar um framhaldið. Þann fund sat jafnframt Aðalsteinn Leifsson, ráðgjafi háskólanna vegna viðræðnanna.
Þá fór einnig fram aðalfundur Háskólans á Bifröst sem er skv. skipulagskrá árlegur fundur fulltrúaráðs Háskólans á Bifröst og haldinn í tengslum ársfund skólans.
Nýir fulltrúar í fulltrúaráð til þriggja ára eru Margrét Guðnadóttir fyrir Samband íslenskra samvinnufélaga, Þórunn Unnur Birgisdóttir fyrir Borgarbyggð, Hanna Kristín Skaftadóttir fyrir háskólaráð Háskólans á Bifröst, Hallur Jónasson fyrir Hollvinasamtök Bifrastar og Guðný Halldórsdóttir fyrir Samtök atvinnulífsins (SA).
Þá varð engin breyting á stjórn Háskólans á Bifröst og er skipan hennar óbreytt frá síðasta aðalfundi eða Gunnur Líf Gunnarsdóttir, fyrir Samband íslenska samvinnufélaga, Auður H. Ingólfsdóttir, fyrir háskólaráð Háskólans á Bifröst, Magnús Smári Snorrason fyrir Borgarbyggð, Ársæll Harðarson fyrir Hollvinasamtök Bifrastar og Tómas Már Sigurðsson fyrir Samtök atvinnulífsins.
Þess má svo geta að ein breyting var á varstjórn HB er Haukur Logi Karlsson hlaut kjör sem fulltrúi háskólaráðs.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta