Rannsóknarsetur skapandi greina í uppsiglingu
Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst, sagði frá undirbúningi að stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina í útvarpsviðtali á Sprengisandi síðastliðinn sunnudag.
Háskólinn á Bifröst undirritaði samning við stjórnvöld í ágúst 2021 um að leiða undirbúning að stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina. Samningurinn er liður í Skapandi Íslandi, aðgerðaráætlun stjórnvalda. Í stjórn undirbúningsnefndar eru einnig fulltrúar Listaháskóla Íslands, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Samtaka skapandi greina.
Anna Hildur rakti í fróðlegu viðtali við Kristján Kristjánsson, þáttastjórnanda, hvernig skapandi greinar voru fyrst skilgreindar sem atvinnuvegur á Íslandi árið 2011 og hversu brýnt það sé að koma upp öflugum rannsóknum sem stjórnvöld og stefnumótandi aðilar geti byggt ákvarðanir sínar á. Jafnframt benti hún á nauðsyn þess að efla gagnasöfnun og tölfræði sem snýr að skapandi greinum hjá Hagstofu Íslands.
Einnig bar á góma í viðtalinu afar áhugavert málþing sem efnt verður til í lok október og ber yfirskriftina Skapandi greinar á tímamótum. Málþingið rekur lokahnykkinn á undirbúningsvinnu vegna nýs rannsóknasetursins, en í þeirri vinnu hefur verið gerð heildstæð þarfagreining á meðal þeirra sem starfa í skapandi greinum og atvinnuvegurinn kortlagður út frá ólíkum þáttum, s.s rannsóknum og rannsakendum, aðgengi að gögnum og tölfræði, stöðu skapandi greina á landsbyggð o.fl.
Á málþinginu munu tveir þekktir fræðimenn í skapandi greinum halda erindi. Ástralinn og prófessorinn Stuart Cunningham, einn fremsti fræðimaður í heimi á sviði skapandi greina, mun fjalla um áherslur í rannsóknum og birtingarmynd ólíkra skilgreininga innan skapandi greina í gegnum hagtölur og tölfræði. Þess má svo geta að Stuart hefur sl. mánuði unnið fyrir undirbúningsnefndina að rýni á aðgengilegum tölfræðigögnum hjá Hagstofu Íslands.
Trine Bille, menningarhagfræðingur og prófessor við Copenhagen Business School, mun á hinn bóginn fjalla um mikilvægi heildstæðrar stefnumörkunar í skapandi greinum og gildi rannsókna til að undirbyggja stefnumótun. Hún hefur látið að sér kveða við stofnun nýrrar rannsóknarmiðstöðvar í Danmörku sem stjórnvöld settu formlega á laggirnar í ágúst síðastliðnum og hafa tryggt fjármögnun fyrir til ársins 2028.
Þá hefur, síðast en ekki síst, verið samhliða stofnun rannsóknasetursin efnt til alþjóðlegs rannsóknarsamstarfs, eins og greint var frá nýverið í frétt okkur um In Situ verkefnið þar áhrif skapandi greina á nýsköpun á landsbyggðinni verða greind.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta