Áhrif skapandi greina á nýsköpun 28. september 2022

Áhrif skapandi greina á nýsköpun

IN SITU er nýtt alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem Háskólinn á Bifröst er aðili að og hefur hlotið 64 milljón króna styrk úr Horizon Europe rannsóknasjóði Evrópusambandsins. 

Tilgangur rannsóknarinnar er að auka skilning á formgerð, ferlum og stjórnun fyrirtækja í skapandi greinum sem staðsett eru í dreifbýli í Evrópu. Skoðað verður hvernig efla megi nýsköpun hjá frumkvöðlum og fyrirtækjum í skapandi greinum og stuðla með því móti að aukinni samkeppnishæfni og sjálfbærni landsbyggða.   

Mikilvægi skapandi greina hefur farið vaxið víða um heim undanfarinn áratug. Staða þessara greina er þó enn viðkvæm þar sem skort hefur á rannsóknir og stefnumótun sem tekur mið af þörfum, sérstöðu og sóknarfærum geirans. Auknar rannsóknir innan skapandi greina benda til þess að nýsköpun þróist með öðrum hætti í dreifbýli en í borgum.   

Markmið verkefnisins er að auka þekkingu sem byggð er á bæði reynslu og hugmynda-fræðilegri innsýn og getur nýst jafnt skapandi greinum sem fræðimönnum og stefnumótandi aðilum.  

Erna Kaaber, sérfræðingur í menningarstefnu, leiðir af hálfu Háskólans á Bifröst íslenska rannsóknarhluta IN SITU ásamt dr. Vífli Karlssyni, prófessor og Önnu Hildi Hildibrandsdóttur, fagstjóra skapandi greina. 

Rannsóknir á vegum verkefnisins fara fram á tilraunasvæðum í 6 Evrópulöndum eða í Portúgal, Finnlandi, Lettlandi, Króatíu, Írlandi og á Íslandi. Skoðað verður  hvort og hvernig hægt sé að stuðla að sjálfbærni í rekstri, nýsköpun og atvinnuuppbyggingu í dreifbýli.   

Kjarni rannsóknarinnar á Íslandi felst í að koma upp tilraunastofu á Vesturlandi þar sem unnið verður með einstaklingum og fyrirtækjum í skapandi greinum og skoðað hvernig styrkja megi starfsgrundvöll þeirra til framtíðar litið.  

Samstarfsaðilar Háskólans á Bifröst á Íslandi í IN SITU eru Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV)  og Breið þróunarfélag. Að verkefninu koma í heild sinni 13 samstarfsaðilar frá 12 löndum. Heildarstyrkur þess nemur samtals 555 milljónum króna til fjögurra ára. Þar af renna, eins og áður segir, 64 milljónir til íslenska hlutans.

Nánari upplýsingar um verkefnið

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta