Nýtt viðskiptafræðinám með áherslu á verkefnastjórnun 3. júní 2019

Nýtt viðskiptafræðinám með áherslu á verkefnastjórnun

Nú í haust hefst kennsla í nýrri áherslulínu í grunnnámi við viðskiptadeild skólans en það er viðskiptafræði með áherslu á verkefnastjórnun. Námið er svar við sífellt vaxandi kröfum atvinnulífsins um fagmennsku við að stýra og leiða fjölbreytt verkefni. Sérstaða námsins kemur fram í námskeiðum sem nýtast þeim sem vilja ná betri árangri við að leiða og stýra hinum ýmsu verkefnum. Sem dæmi um áfanga sem kenndir eru í línunni má nefna straumlínustjórnun, áhættustjórnun og grunn í verkefnastjórnun.  

Verkefnastjórnun er nú þegar stór þáttur í öllu námi á Bifröst en það er byggt upp á verkefnavinnu og er lögð áhersla á að verkefnin séu raunhæf og tengd atvinnulífinu. Þá eru áfangar sem byggja á stórum verkefnum þar sem þjálfun í verkefnstjórnun valkvæðir eða skylda við flestar námslínur skólans. Þar má sérstaklega nefna misserisverkefnin sem eru viðamikil verkefni sem nemendur vinna saman sem teymi, nýtast þau sérstaklega vel í tengslum við verkefnastjórnun.

Línan er spennandi viðbót við fjölbreytta flóru viðskiptafræðináms sem kennt er við skólann. Í öllu því námi er lögð áhersla á að mennta ábyrga stjórnendur sem eru færir um að sýna forystu og taka vel ígrundaðar ákvarðanir. Kennsluhættir miðast við að mæta nútímaþörfum nemenda þar sem lögð er áhersla á persónulega kennslu og þjónustu. Jafnframt að nemendur fái að vinna krefjandi og spennandi verkefni um leið og námsefnið er krufið til mergjar.

Námslínan, er eins og aðrar línur skólans kenndar í fjarnámi og því hægt að stunda það hvaðan sem er. Fyrirlestrar og annað námsefni er allt aðgengilegt á netinu en allir nemendur hittast á vinnuhelgum sem haldnar eru tvisvar á hverri önn.

Námið er 180 eininga nám til BS-gráðu og er hægt að klára námið á tveimur og hálfu ári, hér eru frekari upplýsingar um námið.

Umsóknarfrestur í grunnnám við skólann rennur út 15. júní næstkomandi. Kynntu þér námsframboð í grunnnámi hér.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta