Hafís við Svalbarða

Hafís við Svalbarða

14. ágúst 2025

Nýtt námskeið um öryggismál á Norðurslóðum

Í haust verður hleypt af stokkum nýju námskeiði um öryggismál á Norðurslóðum, ef nægur nemendafjöldi fæst. Námskeiðið veitir innsýn í þær breyttu aðstæður sem orðið hafa að undanförnu með auknum áhuga Bandaríkjanna á landsvæðum Norðurslóða, nokkuð sem hefur áhrif á stöðu svæðisins í alþjóðasamfélaginu og kallar á endurmat á stefnumótun Norðurslóðasamfélaga í öryggis- og varnarmálum.

Námskeiðið ber heitið Öryggi á Norðurslóðum (Arctic Security) og er kennt á ensku. Í námskeiðinu verður rakin þróun öryggismála á Norðurslóðum eftir seinni heimsstyrjöldina, með áherslu á þrjú megintímabil: Kalda stríðið (1945-1991), eftir-kaldastríðsárin (1991-2022) og nútímann. Hugtök eins og raunhyggja, hnattvæðing og þjóðernishyggja eru notuð til að undirbyggja og útskýra helstu einkenni og tilhneigingu í öryggismálum Norðurslóða í sögulegu ljósi. Þróun íslenskrar utanríkisstefnu og þær ákvarðanir sem byggja á megináherslum stjórnvalda í utanríkismálum verða samofin og samþætt umræðunni um skjólkenninguna (e. shelter theory).

Námskeiðið veitir 6 ECTS einingar á grunnnámsstigi.

Gerð er krafa um stúdentspróf eða sambærileg menntun, t.d. úr Háskólagátt Háskólans á Bifröst.

Þátttökugjald er kr. 75.000 kr. 

Vakin er athygli á því að mörg stéttarfélög greiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn.

Kennari námskeiðsins er Nathan Stackhouse, stjórnmálafræðingur/Norðurslóðasérfræðingur og liðsforingi í bakvarðasveit bandaríska flughersins. Nathan er varanlega búsettur á Íslandi og hefur víðtæka reynslu og menntun á sviði stefnumótunar, öryggissamvinnu og alþjóðasamskipta. Sérsvið hans eru málefni Norðurslóða (þ.á.m. samkeppni stórvelda á svæðinu), smáríkjafræði, friðargæslu- og mannúðarmál og evrópsk svæðisstjórnmál.

Skoðanir Nathans eru hans eigin og endurspegla hvorki opinbera afstöðu né stefnu varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna eða bandaríska flughersins.