Nýtt hlaðvarp IN SITU
8. október 2025

Nýtt hlaðvarp IN SITU

IN SITU Dialogues er nýr hlaðvarpsþáttur þar sem raddir skapandi frumkvöðla, listafólks og samfélaga úr dreifbýli víðsvegar um Evrópu fá að heyrast. Hlaðvarpið er hluti af IN SITU, alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem Háskólinn á Bifröst tekur þátt í og styrkt er af Horizon Europe rannsóknasjóði Evrópusambandsins.

Í þáttunum er fjallað um skapandi greinar á svæðum utan þéttbýlis og hvernig einstaklingar og hópar móta samfélög sín með hugviti og nýsköpun. Þar má meðal annars heyra um hvernig ungt fólk er valdeflt til þátttöku, hvernig menningararfleifð og nýsköpun fara saman og hvernig vannýtt rými umbreytist í skapandi miðstöðvar.

Hlaðvarpið er aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum, þar á meðal Spotify, auk samfélagsmiðla IN SITU á LinkedIn, Facebook og Instagram.

Háskólinn á Bifröst er aðili að IN SITU, rannsóknarverkefni um mikilvægi tengsla í landfræðilegu rými, samfélagslegum áhrifum fólks og menningarstarfsemi. Rannsóknin grundvallast á sérstöðu svæða og hvernig þau nýta sér hana í nýsköpun og þróun. Hún byggir einnig á mikilvægi þeirra sem koma að menningarstarfsemi á svæðinu, sem til rannsóknar er, og áhrifum þeirra á uppbyggingu samfélagsins.