Nýtt diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun
Háskólinn á Bifröst býður nú í fyrsta skipti upp á diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks og Starfsmenntasjóð Verslunarinnar. Um er að ræða starfstengt fagháskólanám fyrir verslunarstjóra og einstaklinga með víðtæka reynslu af verslunarstörfum.
Um er að ræða 60 ECTS eininga diplómanám sem byggt er á hæfnigreiningu og tekur mið af starfi verslunarstjóra. Námið er kennt með vinnu og tekur tvö ár í dreifnámi. Námið er að hluta til byggt upp á áföngum sem þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Einnig er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunarinnar í huga og með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni. Nemendur útskrifast með diplómagráðu að námi loknu en hafa svo möguleika á því að halda áfram og klára BS gráðu í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst eða Háskólann í Reykjavík. Styrkur námsins felst í virku samstarfi við atvinnulífið og í samstarfi háskólanna tveggja um þróun þess og kennslu.
Almenn inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða sambærilegt nám, en einnig verður litið til starfsreynslu og hæfni við inntöku nemenda. Reynsla af verslunarstjórnun eða víðtæk starfsreynsla á sviði verslunar er skilyrði. Almennur umsóknarfrestur í námið er 20. janúar 2018 en mögulegt er að taka grunnáfanga í viðskiptafræði, auk birgða-, vöru og rekstrarstjórnun á vormisseri 2018 til að flýta fyrir sér. Umsóknarfrestur í grunnnám fyrir vorönn 2018 við Háskólann á Bifröst er til 10. desember.
Nánari upplýsingar um námið má finna hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta