Nýtt aðsóknarmet slegið 7. júní 2024

Nýtt aðsóknarmet slegið

Nýtt aðsóknarmet var slegið við Háskólann á Bifröst, þegar umsóknarfrestur rann út þann 5. júní sl. Alls höfðu þá borist liðlega 1460 umsóknir, eða þrefalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Hlutfallslega hefur aðsókn að háskólanum því aukist um 200%.

Síðast var aðsóknarmet slegið við háskólann árið 2020, en þá höfðu borist liðlega 875 umsóknir er umsóknarfrestur rann út.

Ef litið er til grunnnáms eru námslínur á borð við viðskiptafræði og viðskiptalögfræði að fá tvisvar til þrisvar sinnum fleiri skráningar en á síðasta ári. Aðsókn í opinbera stjórnsýslu og miðlun og almannatengsl jókst einnig umtalsvert, auk þess sem nýju námslínurnar, öryggisfræði og almannatengsl og stjórnvísindi, sem hefja göngu sína í haust, reyndust ekki síður aðsópsmiklar.

Hvað framhaldnám varðar, þá féllu aðsóknarmetin ekki síður á meistarastiginu. Aukning í námslínuna forysta og stjórnun með áherslu á annars vegar verkefnastjórnun og hins vegar mannauðsstjórnun er allt að þreföld og í meistaranám í markaðsfræði og menningarstjórnun var aðsóknin fimmfalt meiri.

Þann 2. mars sl. voru skólagjöld felld niður við Háskólann á Bifröst og tekið var upp í þeirra stað skráningargjald, eins og tíðkast hjá opinberu háskólunum. Aðdragandi málsins er sá að samningar um niðurfellingu skólagjalda tókust á milli Háskólans á Bifröst og háskólaráðuneytisins í framhaldi af því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskólaráðherra, bauð sjálfstætt starfandi háskólum óskert fjárframlög úr ríkissjóði gegn niðurfellingu skólagjalda.  

Með niðurfellingu skólagjalda urðu þau vatnaskil í rekstri Háskólans á Bifröst að aðgengi að stafrænu fjarnámi á háskólastigi hér á landi jókst til mikilla muna.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst: „Á þessari stundu er okkur þakklæti efst í huga, þakklæti fyrir þann áhuga og það traust sem umsækjendur bera til Háskólans á Bifröst. Þá sýnir þessi verulega aukning sem við erum að sjá á milli ára þá umtalsverðu spurn sem er eftir hágæða fjarnámi á háskólastigi. Kjarni málsins er að svo mörgu leyti sá að háskóli er ekki byggingar heldur fólkið sem við hann starfar. Í okkar huga er því ljóst, að sú ákvörðun að fella niður skólagjöld hefur orðið til þess að styrkja samkeppnisstöðu háskólanáms hér landi, sem er að mörgu leyti mikilvægur áfangasigur fyrir íslenskt háskólasamfélag í heild og framtíðarstöðu þess. Þá er ekki síður um mikilvægt jafnréttismál að ræða varðandi aðgang að háskólanámi.“   

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta