3. febrúar 2022

Nýr rannsóknavettvangur fyrir byggða- og sveitarstjórnarmál

Háskólinn á Bifröst og Samtök sveitarfélga á Vesturlandi, SSV, hafa undirritað samning um rannsóknasamstarf í byggða- og sveitarstjórnarmálum. Um tilraunaverkefni er að ræða til eins árs.

Horft verður sérstaklega til Vesturlands sem rannsóknarsvæðis, en auk þess að efla rannsóknir í byggða- og sveitarstjórnarmálum er stefnt að því að byggja upp gagnkvæma miðlun upplýsinga og þekkingar á þessu sviði og leggja jafnframt grundvöll að rannsóknasamstarfi samningsaðila til lengri tíma litið.

Dr. Vífill Karlsson, dósent við Háskólann á Bifröst og ráðgjafi hjá SSV, mun verkstýra rannsóknarverkefnum.

Með samningnum flytjast m.a. þær rannsóknir sem SSV vinnur um þessar mundir að í byggða- og sveitarstjórnarmálum til samstarfsverkefnisins, auk þess sem samtökin skuldbinda sig til að útvega ný rannsóknarverkefni. Á meðal núverandi verkefna má nefna styrk sem SSV hefur hlotið úr Byggðasjóði og Þróunarsjóði innflytjendamála til að rannsaka stöðu innflytjenda á vinnumarkaði í kjölfar COVID-faraldursins.

Aðkoma Háskólans á Bifröst er í megindráttum sú, að ráða starfsmann í hálfu starfi vegna verkefnisins, auk þess að vinna að öflun nýrra verkefna, samhliða SSV. Þá munu samstarfsaðilar nýta eigin miðla til að koma á framfæri uppýsingum og þekkingu á þeim rannsóknum sem falla undir samstarfssamninginn.

Samningurinn er til 31. desember nk.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta