5. október 2015

Ný rannsókn: Almenn fjármálavæðing Íslands feykti efnahagslífinu af grunni sínum

Í nýrri rannsókn á íslensku stjórnmála- og efnahagslífi (Political Economy) kemur fram að óstöðugleika efnahagslífsins – og þar með hrunið haustið 2008 –  megi meðal annars rekja til hlutfallslega veikrar stöðu félagslegra hreyfinga almennings í landinu, svo sem verkalýðshreyfinga og önnur samtök launafólks. Sú staða hafi rutt úr vegi fyrirstöðu fyrir almennri fjármálavæðingu samfélagsins á forsendum fjármagnseigenda sem hófst á ofanverðri tuttugustu öld, fyrst í kjölfar innleiðingar kvótakerfisins og varð ósjálfbær í aðdraganda hruns.

Það var því ekki einkum smæð landsins sem olli óstöugleika eins og neo-merkantílískir (neo-mercantilist) fræðimenn hafa haldið fram heldur veik staða félagslegra afla í samanburði við sterka stöðu fjármálaafla. 

Til að mynda hafi í gegnum lífeyrissjóðskerfið komist á ný-korporatískt (neo-corporatism) ástand þar sem hagsmunir launþegahreyfinga ófust saman við hag fjármagseigenda sem dró úr mótstöðu við afli fjármagsins í samfélaginu.

Á þessum tíma færðist grundvöllur efnahagslífsins frá fiskveiðum (áður landbúnaði) til fjármálaviðskipta. Þannig hafi efnahagur landsins losnað af grunni sínum. 

Rannsóknin sem verið hefur í vinnslu síðastliðin fimm ár og framkvæmd var í kjölfar hrunsins haustið 2008 er unnin af dr. Eiríki Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst í samstarfi við dr. Claes Belfrage við háskólann í Liverpool og dr. David M. Berry við Essex háskóla í Bretlandi.

Rannsóknin birtist í hinu virta alþjóðlega fræðiriti Capital & Class sem Sage gefur út og nefnist hún A critique of neo-mercantilist analyses of Icelandic political economy and crisis.

Niðurstöður rannsóknarinnar byggja á viðamikilli sjálfstæðri sögulegri og kenningalegri greiningu á íslensku efnahagslífi og stjórnmálum í samanburði við önnur vestræn ríki sem og á viðtölum við tugi framámanna í stjórnmálum og við efnahagsstjórn ríkisins. 

Greinin á vef Sage er að finna hér í frjálsum landsaðgangi (smellið svo á Full Text (PDF)): http://cnc.sagepub.com/content/early/2015/09/15/0309816815602082.abstract

Þeir sem ekki komast framhjá eldveggnum (skráðir utan hans) geta fundið hana hér: https://www.academia.edu/16261459/A_critique_of_neo-mercantilist_analyses_of_Icelandic_political_economy_and_crisis

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta