11. september 2015

Níu af hverjum tíu fóru í háskólanám

Vefmiðillinn Stundin birti nú í vikunni viðtal við hjón sem hafa uppi alvarlegar ásakanir á hendur starfsmönnum Háskólans á Bifröst. Vegna þessa vill rektor háskólans koma eftirfarandi á framfæri. 

Háskólinn á Bifröst hefur starfrækt Háskólagátt frá árinu 2013 en námið byggir á Frumgreinadeild sem starfrækt hafði verið á undan í 15 ár. Nám í Háskólagátt er án hefðbundinna skólagjalda en innheimt er annargjald hverja önn kr. 85.000. Samtals hafa um 200 nemendur útskrifast úr Háskólagátt frá 2013. Námið hefur reynst haldgóður undirbúningur fyrir nemendur sem stefna á háskólanám en hafa gert hlé á námi og sótt reynslu í atvinnulífið og/eða vantar framhaldsskólaeiningar til að komast í háskóla. Það er í langflestum tilfellum orðið 25 ára og getur því ekki komist inn í framhaldsskóla samkvæmt núverandi reglugerð mennta- og menningarmálaráðuneytis. Nám í Háskólagátt er í fullu samræmi við aðalnámskrá framhaldsskóla.

Próf úr Háskólagátt er hins vegar ekki frekar en önnur framhaldsskólapróf trygging fyrir því að komast í hvaða háskólanám hvar sem er.

Um 90% þeirra sem útskrifuðust úr Háskólagátt 2014 hafa stundað háskólanám að útskrift lokinni, samkvæmt könnun sem skólinn gerði nýverið. Um helmingur nemenda við Háskólann á Bifröst en um 40% við aðra háskóla, hérlendis og erlendis. Námið í Háskólagátt er miðað að því námi sem er stundað við Háskólann á Bifröst, viðskiptafræði, lögfræði og félagsvísindi.

Við erum stolt af árangri Háskólagáttarnemenda í háskólanámi og er það eini marktæki mælikvarðinn sem við höfum á gildi námsins. Háskólagáttin hefur á liðnum árum skapað hundruðum einstaklinga tækifæri til háskólanáms, tækfæri sem þetta kraftmikla fólk hefði ella ekki notið. Árangur þess er skýrt merki um gildi námsins og gæði.

Háskólinn á Bifröst hefur ávallt gert umsækjendum um Háskólagátt grein fyrir því að námið tryggi ekki háskólavist. Í viðtölum eru allir umsækjendur í Háskólagátt upplýstir um að til að komast í háskóla á Íslandi þurfi stúdentspróf, en þeir sem útskrifist með aðfararnám frumgreinadeilda sæki um á undanþágu sem háskólar geta nýtt sér með leyfi mennta- og menningamálaráðuneytis. Allir sem útskrifast úr Háskólagátt sækja um á undanþágu í háskóla á Íslandi. Auk þess er er tekið fram á heimasíðu skólans, bifrost.is, að allir háskólar landsins nýti sér þessa heimild mennta- og menningarmálaráðuneytisins. 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta