Nemendur við Háskólann á Bifröst orðnir fleiri en 700 4. september 2019

Nemendur við Háskólann á Bifröst orðnir fleiri en 700

Móttaka nýnema við Háskólann á Bifröst fór fram helgarnar 16. – 18. og 22.- 23. ágúst en í ár eru nýnemar við skólann 261 talsins. Kennsla í öllum námsleiðum innan skólans fór af stað samtímis því og er því skólastarfið hafið þetta skólaárið. Nemendur við skólann eru rúmlega 700 þetta haustið og þar af eru 55 alþjóðlegir nemendur, 27 skiptinemar og 28 aðrir alþjóðlegir nemendur.

Miklar breytingar hafa orðið á kennslukerfum skólans en í sumar voru þrjú ný tölvukerfi innleidd að fullu. Uglan, sem rekin er af Háskóla Íslands, var tekin upp sem nemendaskrárkerfi skólans en þar fer fram innritun nemenda, umsóknir og almenn upplýsingagjöf til nemenda. Canvas var tekið upp sem kennslukerfi, en þar fara fram samskipti nemenda og kennara í öllum námskeiðum skólans. Síðast en ekki síst var ákveðið að skipta um hugbúnað sem notaður er við próf í skólanum. Nýja kerfið, Inspera, býður upp á mun fjölbreyttari möguleika fyrir kennara við uppsetningu á prófum og gafst það vel strax í sjúkra- og úrbótaprófum í lok ágúst. Það má því segja að starfsfólk skólans hafi staðið í ströngu við að læra á ný kerfi samhliða því að sinna öðrum hefðbundnum störfum.

Dagný Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu segist vera ánægð með hvernig hafi tekist til, bæði við móttöku nýnema og að koma skólastarfinu af stað.

Það var gaman að sjá og kynnast stórum hóp nýnema á nýnemadögum og bjóða þau velkomin í nám við skólann. Allir nýnemar eiga það sameiginlegt að taka ákvörðun um að stíga út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt. Á þessum dögum fann maður vel fyrir eftirvæntingu og jafnvel örlitlu stressi í fólki. Starfsfólk skólans hefur átt fullt í fangi með innleiðingu á þremur nýjum tölvukerfum síðustu vikur og mánuði, mér finnst hafa tekist vel til og sýndi það sig í hversu vel nýnemadagarnir gengu fyrir sig.“ Sagði Dagný aðspurð um upphaf skólaársins.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta