Nám í viðskiptalögfræði veitir ákveðið forskot í alþjóðlegu lögfræðiverkefni 3. maí 2019

Nám í viðskiptalögfræði veitir ákveðið forskot í alþjóðlegu lögfræðiverkefni

Tveir nemendur við skólann luku nýverið þátttöku í alþjóðlegu lögfræðiverkefni sem ber heitið LawWithoutWalls. Það voru þau Kristófer Kristjánsson og Íris Hervör sem tóku þátt í fyrir hönd Háskólans á Bifröst. Verkefnið tekur þrjá mánuði og vinna nemendur í hópum með öðrum nemendum víða að úr heiminum. Farið er í tvær ferðir erlendis, í janúar fóru þau út til Spánar þar sem allur hópurinn hittist og allir kynntust sínum hópmeðlimum. Eftir það var verkefnið að öllu leyti unnið í gegn um netið. Í hópnum voru fjórir nemendur, leiðbeinendur og leiðtogar, sem komu annað hvort úr skólum eða fyrirtækjum.

Hver hópur fékk fyrir fram ákveðið viðfangsefni en hafði síðan frjálsar hendur með að útfæra verkefni innan þess. Verkefnið er bæði lagalegs eðlis og viðskiptafræðilegs eðlis en markmiðið var að finna eitthvað vandamál eða gat í lögum, finna lausn á því og síðan finna leið til þess að selja þá lausn. Verkefnið var síðan klárað með ferð til Miami í Bandaríkjunum þar sem nemendur kynntu verkefnið sitt fyrir samnemendum, dómnefnd og áhorfendum.

Kristófer segir verkefnið hafa verið mikla áskorun en mjög gefandi og skilji mikið eftir. „Þetta var mjög skemmtilegt og maður tekur mjög mikið út úr þessu. Það átta sig margir ekki á því hversu erfitt er að vinna hópverkefni í gegn um Skype þegar við komum frá öllum heimshornum. Það þurfa líka ólíkir kúltúrar að vinna saman, ég lærði auðvitað um lögfræði og lagaleg málefni en mest lærði ég um samskipti innan hóps og var að einhverju leyti betur undirbúinn undir það vegna þess hve mikil áhersla er lögð á hópavinnu á Bifröst.“

„Tengslanetið stækkaði líka helling, ég kynntist mjög mörgum og sumt af því fólki eru einstaklingar sem ég sé fyrir mér að ég muni halda sambandi við. Svo er hver hópur með stuðningsaðila sem velja viðfangsefnin og þau senda oft einhverja á staðinn. Microsoft og Spotify senda til dæmis alltaf einhverja.

Hópurinn sem Íris var partur af vann verðlaun fyrir bestu viðskiptahugmyndina en Kristófer segir það einmitt hafa komið sér vel í þessari vinnu að hafa verið að læra viðskiptalögfræði. „Það var betra að vera í viðskiptalögfræði heldur en bara lögfræði, ef ég væri bara í lögfræði þá hefði ég ekki getað tekið jafn virkan þátt í viðskiptahlutanum.“

Að lokum segir Kristófer að verkefnið hafi verið góð tilbreyting. „Ólíkt öllu öðru sem við erum að læra, meginstefið í verkefninu er að reyna að hvetja til nýsköpunar í lögfræði…það sem mér fannst standa upp úr var að kynnast verkefnavinnu og vinnubrögðum annarra og komast í samband við lögfræðinema frá öðrum menningarheimum.“

Umsjón með verkefninu hefur Helga Kristín Auðunsdóttir, lektor við félagsvísinda- og lagadeild en hún fylgdi Kristófer og Írisi út ásamt því að vera leiðbeinandi í öðrum hóp nemenda.

Hægt er að kynna sér grunnnám í viðskiptalögfræði hér, umsóknarfrestur rennur út 15. júní næstkomandi.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta