Möguleikar á nýsköpun í íslensku lögfræðiumhverfi
Helga Kristín Auðunsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Bifröst, stundar nú doktorsnám í lögfræði við Fordham University í New York. Helga Kristín hóf nám í lok sumars og segir þessa fyrstu önn hafa verið einstaklega lærdómsríka en megináhersla hafi verið lögð á aðferðarfræði og gagnrýna hugsun í náminu.
„Við höfum lesið greinar eftir virta fræðimenn á sviði lögfræði og gagnrýna nálgun þeirra á fagið. Við höfum síðan sent frá okkur vikulegar greinar þar sem við rökstyðjum hvað hefði mátt betur fara og hvernig við hefðum leyst tiltekið álitaefni. Það hefur reynst einstaklega krefjandi þar sem ég hef ekki lesið fræðigreinar með þessum gleraugum áður,“ segir Helga Kristín. Hún er þó ekki með öllu ókunn háskólaumhverfinu í Bandaríkjunum en Helga Kristín lauk LL.M í lögfræði frá University of Miami árið 2010 og var þar gestakennari í eitt ár að námi loknu.
„Það er í raun mjög gaman að vera komin aftur í vist hjá bandarískri lagadeild. Kennarar við deildina eru mjög virkir í rannsóknum og starfa saman og styðja. Í hverri viku eru t.a.m. haldir kennarafundir þar sem fræðimaður kynnir grein sína sem hann er með í lokavinnslu og gert er ráð fyrir því að aðrir kennarar á fundinum hafi kynnt sér greinina fyrirfram. Á þessum fundi fær viðkomandi kennari margar krefjandi spurningar og gagnrýni frá kennurum við deildina. Aðferðarfræði og nálgun eru rædd og viðkomandi kemur klyfjaður af ráðum eftir þessa fundi. Dokorsnemar við deildina fara síðan í gegnum sama ferli og næsta vor er gert ráð fyrir að við kynnum verkefni okkar a sambærilegan hátt og tökum við gagnrýni samstarfsfólks á slíkum fundi,“ segir Helga Kristín.
Nýsköpun kann að umbylta lögfræðiþjónustu
Lagadeild Háskólans á Bifröst tekur þátt í Law Without Walls sem er samstarfsverkefni margra virtustu lagadeilda í heimi eins og Harvard, Stanford University og University of Miami. Árlega eru valdir tveir laganemar til að taka þátt fyrir hönd háskólans og hefur Helga Kristín haldið utan um verkefnið og einnig verið liðsstjóri. Í fyrra var nemandi frá Fordham háskóla í hennar liði og bar það lið sigur úr býtum. Segir Helga Kristín þetta oftar en ekki hafa komið upp í spjalli við kaffivélina og þátttaka Háskólans á Bifröst því mörgum kunn ytra.
„Það er gaman að segja frá því að nú mun ég geta miðlað af reynslu minni i verkefninu til breiðari hóps. En ég mun kenna námskeiðið Nýsköpun og lögfræði í nýju meistaranámi í viðskiptalögfræði (MBL) við Háskólann á Bifröst. Þar mun ég beita sambærilegum aðferðum og notaðar hafa verið í Law Without Walls og kanna möguleika á nýsköpun á sviði lögfræði á Íslandi. Þetta mun vonandi kveikja neista hjá nemendum til þess að kanna nýjar leiðir til að starfa á sviði lögfræði á Íslandi og jafnvel umbylta lögfræðiþjónustu á Íslandi í framhaldinu,“ segir Helga Kristín.
Lesa má nánar um námsdvöl Helgu Kristínar ytra í grein á heimasíðu Fordham háskóla hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta