Misserisverkefni varpar ljósi á verðlagsbreytingar á eldsneytismarkaði 28. maí 2019

Misserisverkefni varpar ljósi á verðlagsbreytingar á eldsneytismarkaði

Missersiverkefni við skólann eru af ýmsum toga en þau eiga það flest sameiginlegt að fjalla um málefni sem standa samfélaginu nærri og skipta fólk máli. Verkefnið sem fékk hæstu einkunn í ár, og hlaut viðurkenningu fyrir, er þar engin undantekning. Hópurinn samanstóð af viðskiptafræðinemum og fjölluðu þau um ósamhverfa verðaðlögun á bensínmarkaði og hvaða áhrif koma Costco hefði haft. Meðlimir hópsins voru þau Ásmundur Ásmundsson, Bjarni Heiðar Halldórsson, Benedikt Svavarsson, Guðbjörg Anna Bragadóttir, Helga Sigurlína Halldórsdóttir og Viktor Örn Guðmundsson.

Leiðbeinandi þeirra, Húni Jóhannesson, sagði aðspurður um verkefnið að það hafi verið óvenju metnaðarfullt. „Það er óvenjulegt að fá í hendurnar misserisverkefni sem hefur efnistök sem gætu átt heima í meistaraverkefni. Aðal styrkleiki þessa verkefnis var að beitt var viðurkenndri, vísindalegri aðferðafræði til að rannsaka viðfangsefni, sem var jafnframt framlag til hlutaðeigandi aðila. Eitt sem gerði þennan hóp jafn öflugan var fjölbreytileiki hans, þar sem styrkleikar hvers einstaklings á mismunandi sviðum nýttust sem framlag til verkefnisins.“

Verkefnið er samspil umfjöllunar um bensínmarkaðinn í heild og flókins reiknilíkans þar sem verðbreytingar á íslenskum bensínstöðvum eru settar í samhengi við breytingar á hinum ýmsu breytum í umhverfi bensínmarkaðsins, svo sem heimsmarkaðsverð og gengi bandaríkjadollars. Bornar voru saman breytingar á bensínverði fyrir og eftir komu Coscto á íslenskan markað til að kanna hvort hraði á verðbreytingum hafi breyst með komu verslunarkeðjunnar til Íslands.

Niðurstaðan var sú að eftir komu Costco þá bregst markaðurinn hægar við verðlækkunum en síðustu árin fyrir. Á því tímabili sem skoðað var fyrir komu Costco, eða frá 2012 og fram til 2017, þá fóru breytingar sem ollu hækkun á bensínverði 32% hraðar út í verðlagið heldur en breytingar sem ollu lækkun. Eftir komu Costco var sá munur hins vegar orðinn 48%.

Niðurstaðan kom meðlimum hópsins á óvart. „Við áttum von á að eftir komu Costco þá myndu fyrirtækin bregðast hraðar við hækkunum en lækkunum en á fyrra tímabilinu. Við bjuggumst við að munurinn myndi minnka.“ Segi Bjarni Heiðar.

Allir nemendurnir sem unnu að verkefninu eru í staðnámi á Bifröst og telja þeir það hafa hjálpað þeim mikið. „Það hjálpaði okkur mikið að vera öll staðnemar og geta verið öll saman að vinna að verkefninu. Það er ákveðinn lærdómur falinn í því að vinna svona mörg saman að verkefni á stærð við þetta.“ Segir Helga Sigurlína. „Allir fengu að nýta styrkleika sína við verkefnið og lærðu líka að nýta hæfileika hvers annars þar sem það átti við.“ Segir Guðbjörg Anna.

Þá telja þau misserisverkefnin vera góðan undirbúning fyrir lokaverkefni í náminu. „ Þetta er góður undirbúningur í rannsóknarvinnu fyrir lokaverkefni, hjálpar manni að fá sýn hvar á að byrja að vinna svona rannsóknarverkefni.“ Segir Helga Sigurlína, Benedikt bætir við að þau dragi námsferilinn líka saman. „Námið kemur heim og saman við vinnu á verkefni sem þessu og áfangar sem farið hefur verið í nýtast nánast allir við vinnu á þessu verkefni.

Að lokum segir Bjarni Heiðar að verkefnið hafi gefið þeim möguleika á að skora á sig. „Það var mjög gaman að geta sett sér háleit markmið og geta rannsakað eitthvað sem skiptir máli, ef maður hefur metnaðinn er hægt að gera hvað sem er. Þetta er það lærdómsríkasta sem ég hef upplifað í náminu og breytti nálgun minni á lokaverkefni í náminu.    

Við óskum hópnum til hamingju með vel unnið verkefni og verðskuldaðan árangur.

Umsóknarfrestur í grunnnám í viðskiptafræði rennur út 15. júní, kynntu þér námið hér.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta