Mikilvægi menningarfrumkvöðla í byggðaþróun
Anna Hildur Hildibrandsdóttir er meðhöfundur að nýrri fræðigrein sem birt hefur verið í alþjóðlega tímaritinu Revista Crítica de Ciências Sociais, ásamt Nancy Duxbury og Mark Justin Rainey. Tímaritið er gefið út af Félagsvísindastofnun Háskólans í Coimbra í Portúgal.
Greinin ber heitið „Collective and collaborative cultural entrepreneurship based on emergent placemaking in rural areas“og fjallar um vaxandi mikilvægi menningar- og skapandi greina utan stórborga. Sjónum beint að sjálfsprottinni staðarþróun í tengslum við grasrótardrifið skapandi frumkvöðlastarf og hvernig slík starfsemi getur stutt við og endurlífgað lítil byggðarlög. Bent er á að rannsóknir og stefnumótun hafi lengi verið of borgarmiðaðar, þrátt fyrir öfluga nýsköpun í dreifbýli sem byggir á menningu og skapandi greinum.
Bornar eru saman tvær tilviksrannsóknir sem sýna hvernig staðarmótun og skapandi frumkvöðlastarf birtist í ólíku samhengi. Annars vegar er fjallað um Gort Arts á Vestur - Írlandi, þar sem fjölbreyttur hópur listamanna nýtir torg, götur, auð verslunarrými og verslunarglugga fyrir viðburði, vinnustofur og sýningar. Með þessu umbreytast hversdagsleg rými í vettvang nýrrar bæjarímyndar sem byggir á menningarviðburðum þar sem íbúar eru bæði þátttakendur og áhorfendur.
Hins vegar er fjallað um Erpsstaði í Dalabyggð á Vesturlandi, þar sem hefðbundnir kúabændur hafa þróað rekstur rjómabús með osta- og ísgerð um leið hefur skapast rými sem hefur menningarlegt aðdráttarafl. Verkefnið „Jólasveinarnir koma úr Dölum“, er nýjasta menningarverkefni bændanna á Erpsstöðum en það tengir saman landslag, sagnir og menningarferðamennsku og stuðlar að samstarfi við nærliggjandi aðila. Með þessu þróast ný, staðbundin upplifun sem byggir á lifandi menningararfi.
Greinin dregur fram að verkefni sem þessi virki best þegar þau:
eru rótgróin í staðbundnu samhengi, svo sem menningararfi, sögum, rýmum og sjálfsmynd staðarins, byggja upp samstarfsnet milli skapandi aðila, íbúa og hins opinbera, og njóta stuðnings og „aðstæðna til að blómstra“, til dæmis í formi fjármögnunar, tilraunarýma og tenginga við stefnumótun og þróunarverkefni.
Greinin byggir á evrópska rannsóknarverkefninu IN SITU, sem er styrkt af Horizon Europe, þar sem áhrif menningar- og skapandi greina á nýsköpun og samfélagsþróun í landsbyggðum Evrópu eru rannsökuð.
Greinin í heild sinni: https://doi.org/10.4000/15jr2
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta