Meistarnemi í viðskiptadeild lýkur tvöfaldri meistargáðu 17. júlí 2017

Meistarnemi í viðskiptadeild lýkur tvöfaldri meistargáðu

Anna Marín Þórarinsdóttir lauk tvöfaldri meistaragráðu frá viðskiptadeild Háskólans á Bifröst nú í júní, MS í alþjóðlegum viðskiptum og MS í forystu og stjórnun. Anna Marín segir að líklega megi segja að meistararitgerðin hafi orðið til þess að gráðurnar urðu tvær en ritgerðin í alþjóðlegum viðskiptum varð svo umfangsmikil að hún taldi einfaldara að bæta við sig annarri gráðu heldur en að skera verkefnið niður.

„Ég hafði hvort sem hugleitt að fara í forystu og stjórnun einhvern tíman síðar svo það var alveg eins gott að klára hana samhliða hinni gráðunni. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun enda hefur námstíminn verið mjög skemmtilegur og gefandi,“ segir Anna Marín.

Frá útrás til endurreisnar

Ritgerð Önnu Marínar ber heitið Frá útrás til endurreisnar: Skipulagsbreytingar Kaupþings banka/Arion banka árin 2003-2014. Í ritgerðinni skoðaði hún stjórnskipulag fyrirtækja út frá alþjóðlegu spurningakönnuninni INNFORM (Innovative Forms of Organizing) sem hún framkvæmdi meðal 300 stærstu fyrirtækjanna á Íslandi. Auk þess skoðaði hún þær skipulagsbreytingar sem hafa átt sér stað hjá Kaupþing/Arion banka, á árunum 2003-2014, sem raundæmi í ritgerðinni. Efniviður ritgerðarinnar kom því bæði inn á þætti sem eru kenndir í alþjóðlegum viðskiptum og forystu og stjórnun og segir Anna Marín að sá fræðilegur grunnur sem hún hafi byggt upp í náminu hafi nýst vel við ritgerðarsmíðina. Anna Marín hefur ekki látið staðar numið í námi en hún stefnir á doktorsnám á næsta ári.

„Til að undirbúa mig fyrir doktorsnámið ætla ég að sækja nokkra áfanga  á Bifröst enda námið þar fjölbreytt og margir spennandi áfangar í boði. Skemmtilegt nám, einstakt námsumhverfi og þjónustulund starfsmanna lýsa minni upplifun af Bifröst auk þess sem kennslufyrirkomulag fjarnámsins gerir manni það auðveldara að stunda nám með vinnu og fjölskyldu. Rík þjónustulund starsfsfólksins gerir fjarnámið enn auðveldara sem nýttist t.d. vel í ritgerðarskrifum þegar dömurnar á bókasafninu voru alltaf boðnar og búnar að redda fyrir mig heimildum. Einnig verð ég að telja námsandann sem skapast á vinnuhelgum til upplifunar. Á vinnuhelgum er hópur fólks saman kominn til að skiptast á skoðunum um námið í umhverfi sem er laust við allt annað áreiti sem mér finnst góður kostur. Menn eru þá ekki að einbeita sér að neinu öðru en náminu,“ segir Anna Marín.

Nemendur skipta máli

Anna Marín segir fræðin hafa kennt sér nýjar leiðir og aðferðir við að takast á við dagleg störf. Þá eigi hún nú auðveldara með að mynda sér skoðun þar sem hún hafi tamið sér gagnrýna hugsun og eins hafi námið tamið með sér aga og miklvægi skipulags til að geta tekist á við krefjandi verkefni.

„Námið á Bifröst gerir nemendur hæfari til að vinna í hópum þar sem rík áhersla er lögð á hópavinnu í verkefnum. Það að vera agaður, geta unnið sjálfstætt en einnig líka með öðrum tel ég mikilvæga hæfni að taka með sér út á vinnumarkaðinn. Eins hafa kennararnir margir hverjir fjölbreytta reynslu af vinnumarkaðnum sem er afar góður kostur enda gefur slíkt t.a.m. beina tengingu við atvinnulífið í allri umræðu í náminu. Þar fyrir utan finna nemendur fljótt fyrir því að þeir skipta máli og það sé ekki bara þeirra markmið að þeim vegni vel í náminu, heldur sé það markmið skólans líka. Ég gef því skólanum mín bestu meðmæli,“ segir Anna Marín að lokum.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta