Lögfræði, pólitík og krimmar á bókasafninu 4. maí 2016

Lögfræði, pólitík og krimmar á bókasafninu

Þær Ásta og Þórný á bókasafninu taka vel á móti nemendum og hjá þeim stöllum er hægt að læra í ró og næði. Á bókasafninu er að finna dágóðan bókakost sem háskólabókaverðir hafa í gegnum tíðina nostrað við að kaupa inn. Á opnum degi þann 5. maí verður bókasafnið opið fyrir gesti og gangandi.

„Þegar kennarar setja nýtt efni á leslista þá kaupir safnið eintak af hverri bók og setur á námsgreinahilluna. Síðan geta kennarar lagt inn tillögur að ritum og ég kaupi flest sem þeir biðja um, ef það er ekki þeim mun dýrara og ekki líklegt til að verða notað. Einnig fáum við senda frá erlendum útgefendum lista yfir nýjar bækur sem ég fletti í gegnum og pikka kannski út eina og eina þar. Svo reynum við Ásta að vera vakandi fyrir því sem er að gerast í þjóðfélaginu og hvort eitthvað bitastætt sé að koma út á Íslandi. Núorðið kaupum við flest ef ekki allt sem tengist pólitík og lögum eða siðfræði, hvort sem það eru ævisögur eða krimmar!,“ segir Þórný.
 
Þórný segir talsvert vera til af dýrmætu og gömlu efni sem geymt er í geymslu og þær Ásta hafa einar aðgang að. Elsta bók safnins er frá árinu 1750 og heitir á nútímaíslensku Hús postilla, eða einfaldar prédikanir yfir öll hátíða- og sunnudaga guðspjöll árið um kring / Gerðar af vel meinandi og vel trúverðugum sjálfum biskupnum yfir Skálholtsprestakalli, Séra Jóni Þorkelssyni Vídalín. Þá eru til nokkrar bækur frá 1750 fram til 1916 sem þykja kjörgripir eða listaverk í sjálfum sér. Einnig segir Þórný gersemar að eiga bækur Jónasar frá Hriflu, sem haldið er til haga í Jónasarstofu, og eins bókasafn Guðmundar Sveinssonar, fyrrverandi skólameistara. Þar kenni margra áhugaverðra grasa.
 
„Bifrestingar eru nokkuð samviskusamir að skila bókum á réttum tíma enda vita þeir sem nota safnið að ekki er gott að koma sér í vandræði hjá bókavörðunum, þá fá þeir enga greiða,“ segir Þórný að lokum í léttum dúr.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta