Laganemi frá Bifröst í starfsnám til alþjóðasamtaka sem verja málfrelsi 12. janúar 2015

Laganemi frá Bifröst í starfsnám til alþjóðasamtaka sem verja málfrelsi

Hjörtur Ingi Hjartarson meistaranemi í lögfræði við Háskólann á Bifröst hefur verið samþykktur í starfsnám til alþjóðlegra samtaka sem heita Media Legal Defence Initiative og eru með starfstöð í London. Samtökin hjálpa blaðamönnum, bloggurum og sjálfstæðum miðlum að verja rétt sinn. MLDI útvegar blaðamönnum verjendur, tryggir þeim eftir þörfum fjármagn til þess að greiða málskostnað og aðstoðar lögfræðinga í málum sem tengjast tjáningarfrelsi fjölmiðla. Hjörtur mun starfa hjá samtökunum í tvo mánuði og taka þátt í undirbúningi mála sem koma inn á borð auk þess að vinna að rannsóknum, skrifa greinargerðir o.fl. Hjörtur fer út á svökölluðum Erasmus styrk í gegnum Erasmus+ áætlunina sem er á vegum Evrópusambandsins og Háskólinn á Bifröst er aðili að. 

Hjörtur Ingi er í meistaranámi í lögfræði eins og áður segir en hann er einnig útskrifaður með BS í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst.

Þetta er mikill heiður fyrir Hjört ásamt lagasviði Háskólans á Bifröst en MLDI fær til sín laganema í starfsnám frá mörgum virtustu lagadeildum heims svo sem Columbia háskóla, New York University og nýlega var þar nemandi í starfsnámi frá Harvard.

Nánar um samtökin
Samtökin eru í samstarfi við lögfræðinga og samtök um allan heim sem hafa aðkomu að vernd blaðamanna. Samtökin eru með starfsstöð sína í London en vinna að málum um allan heim, þau vinna núna að 114 málum í 43 löndum.
Markmið samtakanna er að efla þekkingu og hæfni fólks sem starfar á sviðinu.

Meiðyrðarmál í Burkina Faso
Sem dæmi má nefna að MLDI, í samstarfi við alþjóðlega sérfræðinga, vann nýlega meiðyrðamál fyrir Afríska Mannréttindadómstólnum í máli Konaté gegn Burkina Faso. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að fangelsisdómur vegna meiðyrða stríddi gegn tjáningarfrelsinu og Konaté voru dæmdar bætur auk þess sem Burkina Faso var gert að breyta meiðyrðalöggjöf sinni þannig að blaðamenn eigi ekki lengur á hættu að verða dæmdir til fangelsisvistar vegna ummæla sinna. Dómurinn mun vonandi leiða til þess að löggjöf um alla Afríku verði breytt.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu samtakanna   
Um málið sem minnst er á í texta hér

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta