Lagadeild Háskólans á Bifröst 20 ára 7. nóvember 2021

Lagadeild Háskólans á Bifröst 20 ára

Háskólinn á Bifröst fagnaði því í haust að 20 ár eru liðin frá því að lagakennsla hófst við háskólann. Af því tilefni verður efnt til veglegs afmælismálþings, sem tileinkað er minningu Ólafar Nordal (f. 1966 – d. 2017), fyrsta deildarforseta lagadeildarinnar.

Yfirskrift málþingsins er Laganám á Íslandi 20 árum síðar. Háskólinn á Bifröst hóf kennslu í lögfræði næstur á eftir Háskóla Íslands og áhugavert verður að staldra við í tilefni af þessum tímamótum og líta yfir farinn veg í laganámi hér á landi, á þessum tveimur áratugum sem liðnir eru.

Þá er ekki síður við hæfi að tileinka dagskrá þessa afmælismálþings minningu Ólafar Nordal, eins helsta frumherja deildarinnar sem féll frá langt fyrir aldur fram fyrir fjórum árum. Er málþingið haldið á afmælisdegi Ólafar, sem var 3. desember.

Frummælendur á málþinginu eru þrír; Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Kristín Haraldsdóttir framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar og Kristrún Heimisdóttir lektor við lagadeildina. Eru erindi Bjarna og Kristínar tileinkuð minningu Ólafar sem framsækins lögfræðings og lagakennara. Kristrún mun svo í erindi sínu beina sjónum að stöðu lagakennslu hér á landi, 20 árum eftir að Háskólinn á Bifröst hóf að kenna lögfræði.

Þá taka þátt í pallborði málþingsins valinkunnir lögfræðingar úr stjórnmálum, opinberri stjórnsýslu og háskólasamfélaginu, þ.á.m. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins og fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst og Jóhannes Tómasson, lögfræðingur og sonur Ólafar.

Málþingið verður haldið í Hriflu í Háskólanum á Bifröst. Það hefst kl. 14:00, föstudaginn 3. desember og lýkur kl. 17:00 með móttöku í boði rektors. Málþinginu stýrir Elín H. Jónsdóttir, deildarforseti lagadeildar. 

Dagskrá afmælismálþings og skráning

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta