Jólajóga á Hringbraut 18. desember 2020

Jólajóga á Hringbraut

Þóra Rós Guðbjartsdóttir, nemandi við Háskólann á Bifröst, býður upp á jólajógaþætti á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og verður fyrsti þátturinn sendur út laugardaginn 19. desember,kl. 20.30.

Þóra hefur kennt jóga lengi og stofnaði 101yogareykjavík fyrir fjórum árum. Hún stundar nú diplómanám í skapandi greinum við Háskólann á Bifröst. Hún hóf þetta nám af því að hana langaði að breyta til og finna nýjan starfsvettvang. Námið opnaði hins vegar augu hennar fyrir því að hún gæti sameinað áhuga sinn á að vinna við fjölmiðla og ástríðu sína fyrir jóga.  „Mig langaði að prófa nýja leið til þess að miðla jóga og kynnti þess vegna hugmyndina um jólajóga fyrir Sigmundi Erni sjónvarpsstjóra á Hringbraut og við erum búin að taka upp tvo þætti sem verða sýndir nú í desember og stefnum á að taka upp fleiri þætti síðar,“ segir Þóra Rós.

Þróun jógaþátta fyrir sjónvarp verður liður í lokaverkefni Þóru í diplómanáminu og vonast Þóra til þess að verkefnið opni henni leið inn á starfsvettvang þar sem hún sameinar áhuga sinn á að miðla og að tengja fólk við jóga. „Jóga fyrir mér er miklu meira en bara hreyfing. Það er hugarfar, heilsa, agi, kærleikur, öndun, vellíðan, kyrrð, einbeiting og ásetningur. Jóga er samfélag og hjálpar manni að takast á við áskoranir sem koma upp í daglegu lífi. Við gleymum oft að staldra við, hvíla í þakklætinu. Jógað hjálpar manni við það og jólin eru svo sannarlega tíminn til að staldra við og gefa þakklætinu gaum.“

Þóru finnst sjónvarpið afar gefandi miðil og að þáttagerðin sé eitt það skemmtilegasta sem hún hefur fengist við. Nánari upplýsingar um jólajógaþættina er að finna á www.hringbraut.is og á samfélagsmiðlum @101yogareykjavík.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta