Jafnréttisdagar háskólanna Equality Days
Jafnréttisdagar 2024 verða mánudaginn 12. febrúar til fimmtudagsins 15. febrúar nk. Þema daganna er að þessu sinni inngilding, jaðarsetning og aðför að mannréttindum.
Dagskráin er eins og sjá má hér að ofan stútfull af spennandi viðburðum og eru áhugasöm endilega beðin um taka dagana frá.
Háskólinn á Bifröst gengst að þessu sinni fyrir tveimur viðburðum í tilefni jafnréttisdaga:
Þriðjudaginn 13. febrúar kl. 14:00 verður hlaðvarpið Hatursorðræða - hvað er til ráða? sent út í beinni útsendingu frá stúdíóinu í Hafnar.haus. Í hlaðvarpinu ræða Bjarki Þór Grönfeldt, lektor við HB og Ólöf Tara hjá Öfgum, orsakir og afleiðingar þess að rýmið sem hatursorðræða fær í samfélaginu okkar virðist fara stöðugt vaxandi, samfara aukinni skautun í þjóðfélagsumræðunni og öfgahyggju. Hér er á ferðinni áhugaverð umræða, sem snertir að einhverju leyti flest ef ekki öll svið samfélagsins. Að útsendingu lokinni verður upptaka á hlaðvarpinu gerð aðgengileg á helstu veitum.
Degi síðar, eða á miðvikudeginum 14. febrúar, verður boðið upp á jafnréttiskaffi í starfsstöð HB í Borgartúni 18, 3. hæð í Reykjavík. Húsið opnar kl. 14:00 og verður boðið upp á spjall um áskoranir í jafnréttismálum með kaffinu. Sérstakur gestur háskólans af þessu tilefni er Daníel E Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78. Hann kemur í hús kl. 15:00 ræðir næsta hálftímann eða svo núverandi stöðu jafnréttismála og mikilvægustu forgangsmál baráttunnar, eins og þau blasa við honum. Gert er svo ráð fyrir að jafnréttiskaffi ljúki um kl. 15:30.
Jafnréttisdagar eru skipulagðir af samstarfsvettvangi jafnréttisfulltrúa háskólanna. Fulltrúar Háskólans á Bifröst þar af hálfu jafnréttisnefndar HB eru Helga Guðrún Jónasdóttir og Soffía Dagmar Þorleifsdóttir.
Á fasbókarsíðu Jafnréttisdaga má nálgast nánari upplýsingar um viðburði, auk þess sem nánari grein verður gerð fyrir þeim viðburðum sem HB stendur fyrir á miðlum háskólans.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta