15. september 2023

Hvernig auka má samkeppni

Haukur Logi Karlsson, lektor við lagadeild, ræddi í nýlegu viðtali hvort og hvaða lagalegu úrræði stjórnvöld hafi til að auka samkeppni.

Viðalið var tekið í tengslum við ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um samkeppnislagabrot Samskipa sem birt var um síðustu mánaðamót og sátt Samkeppniseftirlitsins við Eimskip í sama máli árið 2021, en Haukur Logi er einn helsti sérfræðingur hér á landi í samkeppnisrétti.

Á meðal þess sem Haukur bendir á er að aukin fjárframlög til eftirlits og eftirfylgni við samkeppnislög sé á meðal þeirra tækja sem stjórnvöld hafi til að stuðla markvisst að virkari samkeppni. 

Þá geta stjórnvöld einnig hugað sérstaklega að lagaramma og stofnanaumhverfi á hverjum tíma, með það að markmiði að auðvelda fólki og fyrirtækjum að verja rétt sinn eða hagsmuni í þessum efnum. 

Sem dæmi um það síðarnefnda nefnir Haukur löggjöf um hópmálsóknir. Hér á landi sé þessi löggjöf á mörgu leyti hagfelldari fyrirtækjum sem valdið hafa tjóni en þeim einstaklingum sem sækja þurfa rétt sinn vegna tjóns sem þeir hafa orðið fyrir. Einkaréttarleg úrræði séu þannig ekki til þess fallin að letja fyrirtæki frá því að valda neytendum tjóni með saknæmri háttsemi. 

Af öðrum málefnum sem báru á góma má nefna auknar rannsóknir á samkeppni á vinnumarkaði m.a. í Bandaríkjunum og tilhneigingu stórfyrirtækja í einokunarstöðu, t.d. í heilbrigðisþjónustu, til að stuðla að neikvæðri launa- og kjaraþróun.

Einnig var ræddur sá viðsnúningur sem er að eiga sér stað innan bandarískra fræðirannsókna á hlutverki ríkisvaldsins í samkeppnismálum. Hefur sú afstaða sem var ríkjandi fram á miðja síðustu öld, að stjórnvöld þurfi við tilteknar aðstæður að geta stigið inn til að efla samkeppni, s.s. á óskilvirkum samkeppnismörkuðum, verið að gera sig gildandi á ný á kostnað ríkjandi viðhorfa þess efnis að bein afskipti stjórnvalda á markaðnum eigi að vera sem minnst. 

Viðtalið við Hauk fór fram við Rauða borðið og sat Haukur fyrir svörum hjá Gunnari Smára Egilssyni, ritstjóra Samstöðvarinnar, útgáfufélags Rauða borðsins. 

Hlusta á viðtalið

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta