Hulda Dóra Styrmisdóttir er nýr mannauðsstjóri hjá Háskólanum á Bifröst
Hulda hóf störf 1. október sl. en hún tekur við af Dr. Arneyju Einarsdóttur, sem er jafnframt dósent við viðskiptadeild.
Hulda var áður hjá Landspítala, þar sem hún hefur sl. fjögur ár starfað sem verkefnastjóri á mannauðssviði í stuðningi við stjórnendur og starfsmenn með áherslu markþjálfunar og sálgæslu.
Á meðal verkefna hennar á Landspítala var stuðningur vegna álags tengt Covid; innleiðing samskiptasáttmála, úrvinnsla mannauðstengdra mála; seta í stuðnings- og ráðgjafarteymi, teymisþjálfun, einstaklingsþjálfun og fræðsla.
Hulda þekkir vel til háskólaumhverfisins, en hefur kennt við Háskólann í Reykjavík frá 2007, fyrst sem stundakennari og síðar sem aðjúnkt og forstöðumaður í Viðskiptadeild HR 2013-2017. Kenndi Hulda m.a. stjórnun, mannauðsstjórnun, breytingastjórnun og vinnusálfræði. Þá hefur hún einnig kennt í námslínum mannauðsstjórnunar í Opna Háskólanum og í námskeiðinu Professional and Personal Development í MBA námi HR.
Hulda hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu tengt stjórnun breytinga og hefur starfað bæði í einkageira, m.a. sem framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka 2001-2004 og í opinbera geiranum, þ.á.m. sem stjórnandi á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar 2008-2013. Hún leiddi starf stjórnar Nýja Kaupþings á árinu 2009, og sat í stjórn Bankasýslu Ríkisins á árunum 2011-2017.
Þá hefur Hulda starfað sjálfstætt við ráðgjöf og markþjálfun á sviði breytinga. Einnig hefur hún í farteskinu reynslu af störfum í markaðsmálum, ferðaþjónustu og fjölmiðlun.
Hulda er með BA í hagfræði frá Brandeis University í Bandaríkjunum, MBA og Diploma í Clinical Organizational Psychology frá INSEAD viðskiptaháskólanum í Frakklandi og Diplómu í sálgæslu frá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Hulda hlakkar mikið til þátttöku í starfi Bifrastar og til að vinna með samstarfsfólki að leiðarljósi háskólans um opinn og skemmtilegan vinnustað.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta