Hnattvæðing og hið borgaralega samfélag
Félagsvísindadeild stefnir að því að bjóða nýtt námskeið í haust, fáist nægur nemendafjöldi. Námskeiðið er ætlað þeim sem vilja tileinka sér þjálfun í gagnrýninni hugsun til að greina og ræða flókin þjóðfélags- og stjórnmálafyrirbæri.
Námskeiðið ber titilinn Hnattvæðing og hið borgaralega samfélag (Globalization and Civil Society) og er kennt á ensku. Skoðað verður hvaða áhrif aukin hnattvæðing hefur haft á stjórnkerfi, samfélagsviðmið og þróun grasrótahreyfinga. Ljósi verður varpað á flókin tengsl milli hnattvæðingar og samfélagsþróunar, einkum hvað varðar hnattvæðingarferlið sjálft og málefni flóttafólks á heimsvísu. Fjallað verður um flóttamannakrísuna svokölluðu, staðbundin grasrótarviðbrögð (Ísland og Grikklandseyjar), Brexit, uppgang Vox á Spáni, aukinn Trumpisma og viðbrögð Miðjarðarhafsþjóða við vaxandi flóttamannastraumi.
Námskeiðið veitir 6 ECTS einingar á grunnnámsstigi.
Gerð er krafa um stúdentspróf eða sambærileg menntun, t.d. úr Háskólagátt Háskólans á Bifröst.
Þátttökugjald er kr. 75.000 kr.
Vakin er athygli á því að mörg stéttarfélög greiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn.
Kennari námskeiðsins er dr. George Kalpadakis, virtur grískur sagnfræðingur sem gegnir stöðu aðalrannsakanda við Akademíuna í Aþenu. Kalpadakis hefur komið víða við og m.a. starfað sem gestaprófessor við Háskólann í Cambridge, Harvard-háskóla og Vínarháskóla.
Auk rannsóknarstarfa og kennslu við stjórnmálafræði- og lagadeildir grískra háskóla, starfar Kalpadakis sem sérstakur ráðgjafi innan Sameinuðu þjóðanna um lýðræðislegt og réttlátt alþjóðlegt skipulag. Hann hefur jafnframt gegnt ráðgjafastöðum fyrir grísku ríkisstjórnina, Evrópuráðið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Sérsvið Kalpadakis nær yfir átakalausnir, svæðasamvinnu, stofnanauppbyggingu og reglusetningar í stjórnsýslu. Kalpadakis hefur gefið út nokkrar fræðibækur og fjölda greina.
Hér má finna nánari upplýsingar um námskeiðið.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta