Hlýtur fyrst brautskráðra lögfræðinga frá Bifröst doktorsnafnbót 1. október 2021

Hlýtur fyrst brautskráðra lögfræðinga frá Bifröst doktorsnafnbót

Helga Kristín Auðunsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Bifröst, varði nýlega doktorsverkefni sitt Hedge Fund Activism and Systems of Corporate Governance in the United States, United Kingdom and Germany. Vörnin fór fram við Fordham University í New York ríki í Bandaríkjunum, þann 3. september sl. 

Doktorsverkefnið fjallar um virkar fjárfestingar vogunarsjóða í skráðum félögum. Með virkum fjárfestingum er átt við kaup vogunarsjóða á litlum hlut í skráðum félögum og vinnu þeirra að breytingum á rekstri viðkomandi félags í krafti þeirrar hlutafjáreignar. Aðgerðir snúa þá yfirleitt að innri stjórnarháttum félaga, til dæmis í formi tilrauna til að koma stjórnarmönnum að eða aðilum i framkvæmdastjórn.

Kröfur vogunarsjóða geta einnig snúið að rekstrarlegum atriðum, til að mynda arðgreiðslum, uppskiptingu félaga eða samruna. Það sem skilur vogunarsjóði frá hefðbundnum virkum hluthöfum er að á meðan hefðbundin hluthafavirkni felur í sér virkt eftirlit með rekstri félaga eftir að ákvörðun um fjárfestingu hefur verið tekin, þá fjárfesta vogunarsjóðir í félögum sem þeir meta illa rekin, með það að markmiði að auka verðmæti eignarhlutsins. Þegar breytingar hafa verið innleiddar, selja þeir yfirleitt hlut sinn með hagnaði. 

Vogunarsjóðir þrýsta oft á stjórnir félaga sem þeir eiga hlut í og leitast þá jafnan við að sannfæra aðra hluthafa um þörf á breytingum með gagnrýni á opinberum vettvangi á stjórnendur og ákvarðanir þeirra. Vogunarsjóðir sem fjárfesta í Bandaríkjunum notast við beinskeytta og harða gagnrýni á meðan vogunarsjóðir sem fjárfesta í Bretlandi og Þýskalandi stíga léttar til jarðar og vinna frekar með stjórnum félaga á bak við tjöldin. 

Tilgangur verkefnisins var að rannsaka hvaða þættir ráða því hvers vegna vogunarsjóðir nota mismunandi aðferðir í mismunandi löndum – enda þott lagareglur séu svipaðar og markmiðin oft þau sömu eða sambærleg. Lagareglur í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi eru þannig bornar saman, auk þess sem áhrif innri og ytri stjórnarhátta hvers lands á virkar fjárfestingar vogunarsjóða eru könnuð.

Þá var sérstaklega skoðuð uppbygging eignarhalds, valdheimildir og hlutverk stjórna og hluthafa og að hvaða leyti reglur um upplýsingaskyldu vegna verðbréfa sem skráð eru í kauphöll móti möguleika vogunarsjóða til að beita sér innan skráðra hlutafélaga. Enn fremur, að hvaða leyti ytri og innri þættir hafa áhrif á þær aðferðir sem vogunarsjóðir beita og þá hvort hluthafakenningin og haghafakenningin hafi áhrif á ákvarðanir stjórna.

Leiðbeinandi doktorsverkefnisins var Sean Griffith, prófessor við Fordham háskóla. 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta