Háskólinn á Bifröst í samstarf um GAGNÍS
Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, undirritaði í dag samkomulag við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um uppbyggingu á GAGNÍS.
GAGNÍS sem er gagnaþjónusta félagsvísinda á Íslandi var stofnuð í árslok 2018. Fyrr á þessu ári sótti Félagsvísindastofnun HÍ um styrk úr Innviðasjóði Vísinda- og tækniráðs sem er í umsjón Rannís. Umsóknin var gerð í samstarfi við Háskólann á Bifröst, Háskólann á Akureyri og Háskólann í Reykjavík.
Meginmarkmið GAGNÍS er að byggja upp gagnaþjónustu sem tekur við rannsóknagögnum, hýsir þau og veitir aðgang að þeim í samræmi við alþjóðlega viðurkennd viðmið um umsýslu gagna. Uppbyggingin er svar við kröfum hins alþjóðlega vísindasamfélags um opin vísindi og miðlun þekkingar sem sköpuð hefur verið í krafti almannafjár. Hún er ennfremur í samræmi við markmið sem sett voru fram í stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017-2019 og stefnu háskólanna um opin vísindi.
GAGNÍS vinnur samkvæmt stöðluðum verk- og gæðaferlum sem endurspegla bestu starfsvenjur um meðhöndlun rannsóknagagna. Uppbygging gæðaferla í GAGNÍS kallar á yfirgripsmikla vinnu og sérhæfða þekkingu sem með tímanum mun verða trygging fyrir því að þjónustan standist gæðakröfur og gæðastaðla.
Uppbyggingin sem hér um ræðir snýr annars vegar að uppsetningu Dataverse hugbúnaðar sem þróaður er af Harvard háskóla til að hýsa vísindagögn í opnum aðgangi, og hins vegar að aðlögun hugbúnaðarins að þörfum GAGNÍS og samstarfsaðila. Áframhaldandi uppbygging Dataverse og aðlögun hugbúnaðarins er nauðsynleg til þess að GAGNÍS geti uppfyllt þær margvíslegu sérhæfðu kröfur sem gerðar eru til gagnaþjónusta á alþjóðavettvangi, m.a. um gæðavottun. Stefnt er að gæðavottun CoreTrustSeal (CTS) og fellur uppbygging innviðanna sem hér um ræðir vel að skilyrðum hennar.
Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina, hefur leitt þetta starf af hálfu Háskólans á Bifröst. Markmiðið er að tengja gagnaöflun í skapandi greinum við GAGNÍS með markvissum hætti samhliða undirbúiningi að stofnun rannsóknarseturs skapandi greina við Háksólann á Bifröst.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta