24. september 2025

Háskólinn á Bifröst á Vísindavöku 2025

Háskólinn á Bifröst tekur þátt í Vísindavöku laugardaginn 27. september í Laugardalshöllinni þar sem hátíð vísindanna á Íslandi verður haldin í 20. sinn.

  • Á þessu ári fagnar Vísindavaka 20 ára afmæli.
  • Laugardalshöllin, laugardaginn 27. september.
  • Opið frá kl. 12:00–17:00.
  • Aðgangur er ókeypis og öll eru hjartanlega velkomin.

Á Vísindavöku gefst gestum einstakt tækifæri til að kynnast heimi vísindanna á lifandi hátt. Á sýningarsvæðinu verður hægt að spjalla við vísindafólk, kynnast fjölbreyttum rannsóknarverkefnum og jafnvel prófa sjálf ýmis tæki og tól sem notuð eru í vísindastarfi. Fjölskyldan er í fyrirrúmi og því er þetta kjörinn viðburður fyrir unga sem aldna til að upplifa vísindin í beinni.

Það sem Háskólinn á Bifröst býður gestum á Vísindavöku:
  • Hugmyndastofa fyrir skapandi framtíðir þar sem gestir geta teiknað upp sína eigin sýn á framtíðina eða lýst í orðum hvað sé handan sjóndeildarhringsins.

  • Kynning á nýrri bók byggða á rannsókn Sigrúnar Lilju, sem fjallar um afleiðingar manntapa á áraskipum við strendur Íslands, og efni henni tengt í samhengi við rannsóknir um áföll.

  • Rannsóknir í byggða- og sveitarstjórnarmálum, sem varpa ljósi á þróun og áskoranir samfélaga um land allt.

Rannís skipuleggur Vísindavöku í samstarfi við íslenska háskóla og rannsóknastofnanir, en viðburðurinn er hluti af European Researchers’ Night sem fram fer víða um Evrópu síðustu helgina í september.

Við hjá Háskólanum á Bifröst hlökkum til að taka á móti ykkur á Vísindavöku og kynna fræðimenn og rannsóknir Háskólans á Bifröst.

Sjáumst næsta laugardag í Laugardalshöllinni!