Háskólahátíð og brautskráning 130 nemenda
Háskólahátíð var haldin á Bifröst laugardaginn 19. júní en þá brautskráðust 130 nemendur frá Háskólanum á Bifröst. Jón Snorri Snorrason, forseti viðskiptadeildar, Njörður Sigurjónsson forseti félagsvísinda- og lagadeildar og Guðjón Ragnar Jónasson forstöðumaður háskólagáttar afhentu nemendum skírteini sín við hátíðlega athöfn í Hriflu, hátíðarsal skólans. Í lok athafnar ávarpaði Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor hina brautskráðu nemendur.
Meistaranámi luku 55, grunnnámi 45 og 30 nemendur luku námi í háskólagátt. Skipting milli deilda var þannig að 58 nemendur luku námi frá viðskiptadeild, 42 luku meistaranámi og 16 grunnnámi. Frá félagsvísinda- og lagadeild luku 42 nemar námi, 13 meistaranámi og 29 grunnnámi. Þar af luku 12 nemendur grunndiplómu í skapandi greinum en þetta er í fyrsta sinn sem nemendur útskrifast úr þeirri grein.
Hæstu einkunnir brautskráðra úr meistaranámi hlutu Jenný Ýr Jóhannsdóttir sem útskrifaðist úr viðskiptadeild og Sara Martí Guðmundsdóttir sem útskrifaðist úr félagsvísinda- og lagadeild. Hæstu einkunnir útskrifaðra úr grunnnámi hlutu Bjarni Heiðar Halldórsson sem útskrifaðist úr viðskiptadeild og Jóhanna María Sigmundsdóttir úr félagsvísinda og lagadeild. Arnfríður Árnadóttir hlaut hæstu einkunn útskrifaðra úr háskólagátt.
Þrír nemendur fá felld niður skólagjöld næsta vetur vegna framúrskarandi námsárangurs. Í viðskiptadeild er það Auður Ösp Ólafsdóttir nemandi í viðskiptafræði með áherslu á þjónustufræði, í félagsvísindadeild Úlfur Atli Stefaníuson nemandi í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði og í viðskiptadeild Inga Hrönn Ásgeirsdóttir nemandi í viðskiptalögfræði en frá og með næsta hausti verða félagsvísinda- og lagadeild aðskildar í tvær deildir.
Hlynur Finnbogason flutti ávarp fyrir hönd nemenda í háskólagátt, Soffía Adda A. Guðmundsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nemenda grunnnema í félagsvísindadeild og Haukur Magnús Einarsson fyrir hönd grunnnema í viðskiptadeild. Erna Guðrún Kaaber flutti ávarp fyrir hönd útskrifaðra meistaranema í félagsvísinda- og lagadeild og Elma Björk Bjartmarsdóttir fyrir hönd útskrifaðra meistaranema í viðskiptadeild.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor skólans stiklaði í hátíðarræðunni meðal annars á stóru um viðburði liðins vetrar sem var um margt sérstakur. Hann var fyrsti vetur Margrétar í starfi og farsótt setti óneitanlega svip sinn á starfsemi skólans. Margrét brýndi fyrir útskriftarnemum að vera leiðtogar í eigin lífi, vera óhrædd að láta sig dreyma og óttast ekki heldur að breyta draumum sínum. Hins vegar benti hún á að ekki væri nóg að láta sig dreyma heldur þyrfti fólk að mæta á staðinn og vinna saman. „Þau sem mæta á staðinn stýra því sem gerist,“ sagði Margrét í lok ræðu sinnar.
Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir kennslustjóri stýrði athöfninni og karlakórinn Söngbræður söng fyrir gesti. Stjórnandi þeirra og undirleikari var Birgir Þórisson.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta