16. febrúar 2023

Háskólahátíð á Bifröst

Alls 130 nemendur verða brautskráðir þann 18. febrúar næstkomandi, frá Háskólanum á Bifröst.

Háskólahátíðin fer að venju fram í Hriflu, aðalsal háskólans og í tilefni dagsins fá útskriftarefnin gefins rós, er þau veita prófskírteinum sínum viðtöku. Þá flytja fulltrúar grunnnema og meistaranema sitt úr hverri háskóladeild ávarp. Dúxar hvers árgangs í grunn- og meistaranámi hljóta útskriftarverðlaun og afreksnemar í grunnnámi fá skólagjöld á milli anna niðurfelld.

Konur eru í nokkrum meirihluta á meðal brautskráðra eða 92 talsins. Útskriftarhópurinn skiptist að öðru leyti þannig að við Félagsvísindadeild ljúka samtals 28 nemendur námi, við lagadeild 15 og viðskiptadeild 87. Þá nemur fjöldi brautskráðra grunnnema 69, en af meistarastigi verður 61 meistaranemi brautskráður.

Hátíðinni lýkur með ávarpi rektors, Margrétar Jónsdóttur Njarðvík og að því búnu er hinum nýútskrifuðu og gestum boðið upp á léttar veitingar í hátíðarsal háskólans.

Á meðan á athöfninni stendur flytur karlakórinn Söngbræður nokkur lög. Stjórnandi er Viðar Guðmundsson, en um undirleik sér Birgir Þórisson.

Háskólinn á Bifröst er ein fremsta menntastofnun landsins í stafrænu fjarnámi á háskólastigi og koma útskriftarefnin því víða að, jafnt innanlands sem utan eða frá Danmörku, Hellu, Ísafirði, Reyðarfirði, Spáni og Vestmannaeyjum, svo að dæmi séu tekin.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta