
Guðrún Johnsen hlýtur framgang í stöðu prófessors í fjármálum
Dr. Guðrún Johnsen, deildarforseti við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, hefur hlotið framgang í stöðu prófessors í fjármálum. Fyrst kvenna á Íslandi.
Í síðustu viku skilaði dómnefnd um framgang og akademískt hæfi niðurstöðu um framgangsbeiðni Guðrúnar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að hún uppfylli kröfur um framgang í stöðu prófessors. Til að öðlast prófessorsstöðu þarf heildarstig að lágmarki að vera 400, rannsóknastig að lágmarki 270 og kennslustig að lágmarki 50. Í árslok 2024 reyndist heildarfjöldi stiga Guðrúnar vera 629, rannsóknastig 327 og kennslustig 172. Dómnefndin naut aðstoðar Vísindasviðs Háskóla Íslands við matið en í henni sitja Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus, Benedikt Bogason, prófessor í lögum og Margrét Sigurún Sigurðardóttir, prófessor viðskiptadeild Háskóla Íslands.
Guðrún hlaut doktorsgráðu í hagfræði frá École Normale Supérieure í París og tvöfalda meistaragráðu í í hagnýtri hagfræði og tölfræði frá University of Michigan í Ann Arbor. Guðrún starfaði meðal annars sem lektor við Copenhagen Business School, CBS, þar sem hún sinnti rannsóknum á sviði stjórnhátta fyrirtækja, fjármála fyrirtækja og lífeyrismála. Á ferli sínum hefur Guðrún einbeitt sér að rannsóknum á skilvirkri ráðstöfun fjármagns (e. Efficient allocation of capital) sem hefur leitt hana í að þverfaglegt samstarf við prófessora víða erlendis á sviði lögfræði, hagfræði og fjármála.
Guðrún hefur víðtæka reynslu sem ráðgjafi og stjórnarmaður í fjármálafyrirtækjum. Hún situr í bankaráði Seðlabankans, en hefur meðal annars verið varaformaður stjórnar Arion banka á árunum 2010–2017, stjórnarmaður í rekstrarfélagi MP banka 2007–2008 og stjórnarmaður hjá Lífeyrissjóði Verzlunarmanna 2019–2023. Hún hefur einnig starfað sem efnahagsráðgjafi yfirstjórnar danska seðlabankans, Danmarks Nationalbank, í málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðagreiðslubankans.
Við óskum Guðrúnu innilega til hamingju með framganginn í stöðu prófessors og áframhaldandi velgengni í störfum hennar við Háskólann á Bifröst.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta